Innlent

Ekki íþyngjandi að mega ekki áreita fólk

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Jökull Gíslason lögreglumaður segist ekki telja að það sé íþyngjandi fyrir einstaklinga að mega ekki áreita tiltekna manneskju.Hæstiréttur felldi nýlega úr gildi þrjú nálgunarbönn lögreglu á jafnmörgum dögum. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í fréttum okkar í gær að nálgunarbönn væru refsing í sjálfu sér og fara ætti varlega í að beita því.

Jökull segir ekki útilokað að lögreglan hafi ekki undirbúið málin nógu vel en hann tekur þó undir með aðstoðarlögreglustjóra um að meðalhófsreglan sé túlkuð gerandanum í hag.

Hann segir nauðsynlegt að beita slíkum úrræðum til að rjúfa ákveðinn vítahring fólks sem er statt í heimilisofbeldi. Það sé verið að reyna að skilja fólk í sundur og veita þolendum vernd. Hann segir það eitt það átakanlegasta sem lögreglumenn upplifi í slíkum málum sé að koma á sama staðinn aftur og aftur til að stöðva ofbeldið.

Allir lögreglumenn í Reykjavík hafa verið sendir á námskeið um heimilisofbeldi en það er hluti af sérstöku átaki sem fjölmargar aðrar stofnanir koma að, svo sem Félagsþjónustan og barnaverndarstofa. Meðal annars verður lögð áhersla á að aðstoða gerendur í slíkum málum við að hætta ofbeldinu og veita þolendum vernd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×