Enski boltinn

Ekki í fyrsta sinn sem Van Gaal byrjar illa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Van Gaal og Giggs horfa ráðalausir á MK Dons - Manchester United.
Van Gaal og Giggs horfa ráðalausir á MK Dons - Manchester United.
Nú reynir á þolinmæði stuðningsmanna Manchester United sem aldrei fyrr. Eftir gott gengi í æfingaleikjum hefur byrjunin á tímabilinu verið erfið, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Lærisveinar Louis van Gaal eru aðeins með eitt stig eftir tvo fyrstu leikina í ensku úrvalsdeildinni og á þriðjudaginn mátti United þola niðurlægjandi 4-0 tap gegn C-deildarliði MK Dons í deildarbikarnum.

Van Gaal stillti vissulega ekki upp sínu sterkasta liði, en í byrjunarliðinu voru m.a. leikmenn sem hafa leikið úrslitaleiki í Meistaradeild Evrópu og á HM.

Þetta var í fyrsta sinn í 58 ár sem Manchester United tapar fyrir neðrideildarliði með fjögurra marka mun og jafnframt versta tap gegn liði í þriðju efstu deild eða neðar í 136 ára sögu félagsins.

Louis van Gaal hefur orðið tíðrætt um að það muni taka hann tíma að innleiða þá hugmyndafræði sem hann vinnur eftir og að stuðningsmenn United verði að sýna þolinmæði á meðan á þessari enduruppbyggingu standi.

Hollenski knattspyrnustjórinn bergmálaði þetta stef í viðtölum eftir útreiðina gegn MK Dons.

„Þeir verða að trúa á okkar hugmyndafræði. Við erum að byggja upp lið og þú gerir það ekki á einum mánuði, né einu ári,“ sagði van Gaal.

„Auðvitað eru þetta vonbrigði, en ég vona að stuðningsmennirnir haldi áfram að trúa á hugmyndafræðina okkur, sem tekur tíma að innleiða.“

Van Gaal hefur oft talað um að liðin sem hann stjórnar séu vanalega sein í gang.

„Ef þú lítur á ferilinn þá hafa liðin mín alltaf byrjað rólega. Það er vegna þess að ég læt leikmönnum mínum mikið af upplýsingum í té og þeir þurfa að aðlagast.“

Það hefur þó ekki alltaf átt við, sé einungis litið á úrslitin. Barcelona (í fyrri stjórnartíð van Gaals) og AZ Alkmaar unnu bæði 11 af fyrstu 15 deildarleikjum sínum undir stjórn Hollendingsins og Ajax níu af fyrstu 15.

Það er í raun bara Bayern München – og nú Manchester United – sem byrjaði virkilega illa undir stjórn van Gaals. Þýska stórveldið fékk aðeins tvö stig úr fyrstu þremur deildarleikjum sínum og eftir 13 leiki sat liðið í 7. sæti þýsku deildarinnar með 21 stig.

Bayern var einnig í vandræðum í Meistaradeild Evrópu, en eftir 4-1 sigur á Juventus fóru hlutirnir að gerast.

„Við urðum að vinna þann leik og gerðum það og það var vendipunktur á tímabilinu,“ sagði van Gaal um Juventus-leikinn.

Bayern vann 15 af síðustu 20 deildarleikjum sínum á tímabilinu (2009-10), tryggði sér sigur í deildinni og bikarkeppninni, auk þess sem liðið komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Stuðningsmenn United vonast eflaust eftir svipuðum viðsnúningi, en það er hætt við að þeir þurfi að vera þolinmóðir og raunsæir meðan van Gaal kemur sínum hugmyndum á framfæri. Ef marka má fyrstu leiki tímabilsins gæti það tekið lengri tíma en búist var við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×