Enski boltinn

Ekki hrifinn af „huglausum“ N'Golo Kante

Tómas Þór Þórðarson skrifar
N'Golo Kante er búinn að vera einn besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar í tvö ár.
N'Golo Kante er búinn að vera einn besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar í tvö ár. vísir/getty
Frank Leboeuf, fyrrverandi leikmaður Chelsea og franska landsliðsins, er ekki jafnhrifinn af samlanda sínum N'Golo Kante og flestir en honum finnst miðjumaðurinn vera huglaus og skorta alla leiðtogahæfileika.

Kante er búinn að spila frábærlega í ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár. Hann varð enskur meistari með Leicester á síðustu leiktíð og lyftir bikarnum væntanlega öðru sinni á tveimur árum með Chelsea í maí.

Hann er aftur á móti aðeins búinn að byrja einn af fjórum leikjum franska landsliðsins í undankeppni HM 2018. Leboeuf viðurkennir að Kante er góður leikmaður sem getur verið hluti af liði eins og Chelsea eða franska landsliðinu en hann er ekki fullkominn.

„Strákurinn er Chelsea mjög mikilvægur en hann er enginn leiðtogi og talar ekki mikið,“ segir Frank Leboeuf í viðtali við RMC.

„Hann er huglaus og skortir yfirsýn. Hann er mikill stríðsmaður en hann hefur ekki persónuleikann til að vera alvöru leiðtogi.“

„Hann er feiminn og er ekki leiðtogi í hjarta sínu að mínu mati. Hann er ein af stjörnum Chelsea-liðsins og Antonio Conte treystir á hann inn á vellinum. Hann gerir Kante samt aldrei að leiðtoga. Hann spilar ekki eins og leiðtogi. Hann er ekki sama týpan og Zinedine Zidane,“ segir Frank Leboeuf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×