Innlent

Ekki hlæja að nýklipptum hundum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Guðríður Vestars, eða Gurrý í Dýrabæ, segir að hundar geti átt hættu á að verða þunglyndir ef hlegið er að þeim eftir rakstur. Hundurinn upplifi mikla breytingu í sínu lífi eftir klippinguna og því þurfi að taka tillit til hans.

„Hundurinn kemur heim og á von á því að sagt verði við hann: „Æðislega ertu sætur“ – svo fær hann það ekki og allir hlæja. Þegar mannfólkið stendur þarna, allir horfa á hundinn og fá hláturskast, það er ekki gott,“ sagði Gurrý í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ég veit um einn sem fór bara ekki undan rúminu í þrjár vikur, eða þegar feldurinn var kominn töluvert aftur. Hann var miður sín því fjölskyldunni fannst þetta svo hlægilegt,“ bætti hún við.

Algengt er að hundaeigendur fari með hunda sína í rakstur þegar hlýna tekur í veðri. Gurrý segir það ekki algilt að hundar verði óöryggir eftir rakstur, sumir verði alsælir og jafnvel fari að haga sér eins og hvolpar. Hafa beri þó í huga eftir fyrsta raksturinn að hundurinn gæti fundið fyrir óöryggi. 

Hlusta má á viðtalið við Gurrý í spilaranum hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×