Skoðun

Ekki hafa bókhaldið í rassvasanum

Björg Árnadóttir skrifar
Lítil frumkvöðlafyrirtæki eiga oft fullt í fangi með að sinna kjarnastarfsemi sinni og ekki ósjaldan sem skriffinska og regluverk verða stjórnendum þeirra ofviða á fyrstu árum í rekstri, bæði vegna vinnu og kostnaðar.

Bókhald og ársreikningagerð er eitt af því sem oft stendur í litlum fyrirtækjum, þekkingin er oft ekki til staðar og útfærslan er of flókin. Þetta hefur orðið til þess að fyrirtæki velja illu heilli að skila ekki ársreikningum, oft svo árum skiptir.

Fyrir nokkrum árum tók ég við rekstri ferðaþjónustufyrirtækis sem þá flokkaðist sem örfyrirtæki. Það að græja ferðir, redda bílum og gera viðskiptavininn ánægðan var ekki vandamálið. Öll höfðum við mikla ánægju af því á meðan kvittanir, reikningagerð og ársreikningar flæktu málið og sátu því á hakanum.  

Nú hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra beitt sér fyrir því að örfyrirtækjum gefist kostur á að skila ársreikningum rafrænt. Slíkri einföldun ber að fagna!

Þar með er þó aðeins hálf sagan sögð. Til að „hnappurinn“ virki þarf baklandið að vera í lagi. Af fenginni reynslu hvet ég sérstaklega ykkur kollega mína í ferðaþjónustu, sem eruð að hefja rekstur, til að koma fjármálunum strax í farveg. Ekki bíða með að koma ykkur upp bókhaldskerfi sem heldur utan um tekjur og gjöld. Ef þið treystið ykkur ekki í þetta sjálf leitið þá til annarra eftir aðstoð. Að hafa þessi mál í farvegi er forsenda þess að þið getið síðan einfaldað ykkur lífið með rafrænum skilum ársreikninga.

Einfaldari skil ársreikninga hjá litlum fyrirtækjum og lægri umsýslukostnaður voru helstu markmiðin með þessum breytingum á lögum um ársreikninga. Einföldunin felst í því að stjórnendur geta nú um leið og þeir skila skattframtali gefið samþykki sitt fyrir því að lykiltölur úr skattframtali félagsins verði sendar ársreikningaskrá sem fullgildur ársreikningur til birtingar. Slíkan ársreikning þarf hvorki að yfirfara af skoðunarmanni eða endurskoða né heldur þarf að fylgja með honum skýrsla stjórnar. Mögulega væri hægt að biðla til ráðuneytisins um að einfalda þetta ferli enn frekar og gera lista yfir bókhaldsþjónustur sem gefa sig út fyrir að þjónusta lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu. Ég hefði hoppað hæð mína yfir aðgengi að slíkri sérhæfðri þjónustu á sínum tíma.  




Skoðun

Sjá meira


×