Fótbolti

Ekki hægt að tapa á sorglegri hátt | Japan komst í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Japönsku stelpurnar fagna í leikslok.
Japönsku stelpurnar fagna í leikslok. Vísir/AP
Japan og Bandaríkin spila til úrslita á HM kvenna í fótbolta í Kanada eftir að Japan vann 2-1 sigur á Englandi í seinni undanúrslitaleik keppninnar í nótt.

Markið má sjá hér.

Japan vann leikinn á ótrúlegu sjálfsmarki enska varnarmannsins Lauru Bassett sem á afar slysalegan hátt sparkaði boltanum yfir markvörð sinn og í slá og inn. Sjálfsmarkið kom á þriðju mínútu í uppbótartíma en þá voru aðeins nokkrar sekúndur til leiksloka.

Laura Bassett var óhuggandi í leikslok og öll enska þjóðin hefur örugglega grátið með henni. Enski þjálfarinn Mark Sampson hrósaði henni fyrir frammistöðuna á mótinu í sjónvarpsviðtali eftir leik og sagði hana vera hetju en ekki skúrk.

Enska liðið var alls ekki verra liðið á móti ríkjandi heimsmeisturum og átti meðal annars tvö sláarskot í leiknum. Fyrstu tvö mörk leiksins komu úr vítaspyrnum í fyrri hálfleik.

Aya Miyama skoraði fyrst fyrir Japan úr víti á 32. mínútu en Fara Williams jafnaði úr víti átta mínútum síðar.

Það stefndi allt í vítakeppni þegar óheppnin helltist yfir Lauru Bassett og hún kom sér líklega inn í knattspyrnusöguna enda erfitt að ímynda sér sorglegri hátt til að missa af sæti í úrslitaleik á HM.

Japan er þar með komið í úrslitaleikinn á öðru heimsmeistaramótinu í röð en liðið hefur unnið alla sex leiki sína í keppninni í Kanada og þeir hafa allir unnist með einu marki.

Úrslitaleikur Bandaríkjanna og Japans fer fram á sunnudaginn en á laugardaginn keppa England og Þýskaland um þriðja sætið á mótinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×