Erlent

Ekki hægt að hefja viðræður fyrr en eftir útgönguna

Cecilia Malmström, viðskiptamálastjóri Evrópusambandsins
Cecilia Malmström, viðskiptamálastjóri Evrópusambandsins
Cecilia Malmström, viðskiptamálastjóri Evrópusambandsins, segir Breta ekki geta hafið viðræður um fríverslunarsamning fyrr en þeir hafa formlega yfirgefið sambandið. Hún segir langt í að samningaviðræður geti hafist.

Malmström segir í samtali við Breska ríkisútvarpið að Evrópusambandið muni skilgreina Bretland sem þriðja ríki eftir útgöngu þeirra. Það þýði að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gildi um öll þeirra viðskipti þar til samkomulag kemst á um nýjan samning. Hún tekur fram í að það hafi tekið sjö ár að komast að samkomulagi við stjórnvöld í Kanada um fríverslunarsamning, og að í kjölfarið þurfi öll ríki að samþykkja samninginn. Það geti tekið allt aðtvö ár.

Malmström lagði áherslu á að ekki sé hægt að byrja að móta samning við Breta fyrr en þeir hafa virkjað fimmtugustu grein Lissabon-sáttmálans svokallaða, en hann hrindir af stað tveggja ára samningaferli sem að lokum leiðir til útgöngu ríkisins úr sambandinu. Hún segir að á þessu tveggja ára tímabili fari fram pólitískar viðræður sem séu tvenns konar; Fyrst yfirgefi ríkið sambandið og að í kjölfarið verði farið í samningaviðræður. Því muni það taka langan tíma að komast að samkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×