Innlent

Ekki gerð krafa um að ráðherrar upplýsi af hverjum þeir leigja

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi siðareglur ríkisstjórnarinnar á þingi í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi siðareglur ríkisstjórnarinnar á þingi í dag. Vísir/Daníel
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að þær siðareglur sem ríkisstjórnin hafi til hliðsjónar í störfum sínum taki ekki á því að ráðherrar upplýsi hverjir séu leigusalar þeirra. Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á þingi í dag.

Siðareglur ríkisstjórnarinnar voru til umræðu í tilefni af fréttum um að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi selt íbúð sína til eignarhaldsfélags í eigu stjórnarformanns Orku Energy, fyrirtækis sem hefur farið með ráðherranum í ferðir til Kína til að kynna starfsemi sína. Illugi leigir íbúðina af félaginu fyrir 230 þúsund krónur á mánuði auk þess sem hann greiðir hita og rafmagn.

Svandís spurði meðal annars hvort að það hafi verið farið sérstaklega yfir hagsmunaskráningu þingmanna þegar siðareglurnar sem hafðar eru til hliðsjónar hafi verið kynntar ráðherrum sitjandi stjórnar. 

„Það var náttúrulega farið yfir reglurnar í heild, þær fylgdu sem heild, og eru til hliðsjónar sem heild. Með því er ég alls ekki að fallast á þá fullyrðingu háttvirts þingmanns að ekki hafi verið farið eftir þeim reglum, meðal annars hvað varðar hagsmunaskráningu ráðherra,“ svaraði Sigmundur Davíð.

„Ég gef mér að háttvirtur þingmaður sé þar að ráðherra eigi að segja frá því hverjir séu leigusalar þeirra. Það er ekki fjallað um það í þessum siðareglum og raunar ekki neinum siðareglum sem ég þekki,“ sagði hann einnig í svarinu.

Sigmundur sagði, eins og áður hefur komið fram, að ríkisstjórnin starfi með hliðsjón af siðareglum sem settar voru í tíð Vinstristjórnarinnar og auglýstar voru í Stjórnartíðindum árið 2011. Þær reglur hafi verið kynntar fyrir ráðherrum og hafi fylgt í upplýsingamöppu sem ráðherrum er afhent þegar þeir taka sæti í ríkisstjórn. 


Tengdar fréttir

Sagði ekkert óeðlilegt við samband sitt við Orku Energy

Illugi Gunnarsson seldi stjórnarformanni Orku Energy ehf. fyrirtæki og húsnæði sitt við Ránargötu sem hann nú leigir eftir að hann varð ráðherra. Illugi vann áður ráðgjafarstörf fyrir OE vegna umsvifa þess í Asíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×