Handbolti

Ekki fyrstu endurkomur ÍBV í Höllinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Meistarar ÍBV er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari.
Meistarar ÍBV er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari. vísir/Þórdís
ÍBV er bikarmeistari karla í handbolta eftir sigur á FH, 23-22, í úrslitaleik í Laugardalshöll. Þetta er í annað sinn sem ÍBV verður bikarmeistari en það vann þann fyrri fyrir 24 árum með sigri á Víkingi í Höllinni, 26-22.

Það sem einkenndi bikarúrslitahelgina hjá Eyjamönnum voru endurkomurnar. ÍBV var sex mörkum undir, 18-12, gegn Haukum í undanúrslitum en skoraði níu mörk í röð og breytti stöðunni í 21-18. Það vann svo leikinn, 23-21.

Í úrslitaleiknum sjálfum gegn FH var ÍBV mest fjórum mörkum undir í fyrri hálfleik, 11-7. Eins og í undanúrslitunum gafst ÍBV ekki upp enda ekki þekkt fyrir það. Eyjamenn skoruðu fjögur síðustu mörk fyrri hálfleiks og tvö fyrstu í seinni hálfleik. Samtals skoraði ÍBV sex mörk í röð og breytti stöðunni í 13-11.

Þessar endurkomur voru vel við hæfi því þegar ÍBV vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil gegn Víkingi árið 1991 lenti liði fjórum mörkum undir í fyrri hálfleik, 7-3, og missti besta varnarmann liðsins, Sigurbjörn Óskarsson, út af með rautt spjald fyrir kjaftbrúk og læti.

Eyjamenn svöruðu því mótlæti með átta mörkum í röð. Þeir breyttu stöðunni í 11-7, létu forystuna aldrei af hendi og unnu nokkuð óvæntan sigur á sterku liði Víkings, 26-22.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×