Viðskipti innlent

Ekki forsenda til íhlutunar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samkeppniseftirlitið segir að samruni 365 miðla ehf. og Konunglega kvikmyndafélagsins ehf. hafi ekki skaðleg áhrif á samkeppni eða fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í ákvörðun eftirlitsins sem birtist á heimasíðu þess í dag.

Í ákvörðuninni er fjallað um kaup 365 miðla á öllum hlutum Konunglega kvikmyndafélagsins, en síðarnefnda félagið var stofnað í nóvember 2013 og hóf útsendingar sjónvarpsstöðvanna Miklagarðs og Bravó í mars á þessu ári

Niðurstaðan byggist meðal annars á því að tekjur Konunglega kvikmyndafélagsins á fyrstu fimm mánuðum þessa árs gáfu til kynna að hlutdeild félagsins á þeim mörkuðum sem það starfaði væri vart merkjanleg. Þannig hafi samruninn ekki í för með sér aukningu á hlutdeild 365 miðla á mörkuðum málsins. Ekki eru að öðru leyti forsendur til að aðhafast vegna samrunans.

Í ákvörðuninni er þó ítrekað það sem fram kemur í ákvörðun þess nr. 34/2013, Kaup 365 miðla ehf. á eignum D3 Miðla ehf., að staða 365 miðla á ýmsum undirmörkuðum fjölmiðlamarkaðar er mjög sterk. Fyrirtækinu ber því að gæta vel að sér, enda geta samningar og önnur hegðun þeirra orðið til þess að hindra að keppinautar þeirra nái að vaxa og dafna og efli þar með samkeppni. Samkeppniseftirlitið segir samruna 365 miðla ehf. og Konunglega kvikmyndafélagsins ehf. hins vegar ekki vera vettvangur til þess að grípa til aðgerða vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×