Innlent

Ekki fleiri uppsagnir framundan á RÚV

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ingvi Hrafn Óskarsson.
Ingvi Hrafn Óskarsson.
Samkomulag hefur náðst milli RÚV og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um frestun á afborgun af skuldabréfi að fjárhæð 190 milljónir króna. Gjalddagi bréfsins var í gær en hefur verið frestað til 31. desember 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.

Umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir undanfarins árs hafa ekki dugað til að vega á móti niðurskurði á þjónustutekjum og útlit er fyrir tap á rekstrarárinu 2013 til 2014. Viðræður standa yfir við stjórnvöld um að leysa úr þessum langtímavanda, auk þess sem unnið er að sölu eigna RÚV, meðal annars lóða og fasteigna.

Ingvi Hrafn Óskarsson formaður stjórnar RÚV er bjartsýnn á að RÚV muni geta greitt skuldina eftir fjóra mánuði. „RÚV er náttúrulega með tekjur allan ársins hring, frá auglýsingasölu og öðru, auk þess sem það fær greiðslu frá ríkinu sem innheimtir útvarpsgjaldið. En þetta sýnir bara þá þröngu stöðu sem RÚV er í, það má ekkert út af bregða,“ segir hann.

Ingvi segir að nú þegar hafi verið ráðist í umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir en segir að frekari uppsagnir séu ekki fyrirhugaðar að svo stöddu. Hann segir að umfang vandans sem safnast hefur upp sé slíkt að fleira þurfi að koma til. Nauðsynlegt sé að ræða fjárhagsgrundvöll félagsins í samhengi við margbrotin lögboðin verkefni við stjórnvöld.


Tengdar fréttir

RÚV yfirskuldsett

Ríkisútvarpið átti ekki fyrir greiðslu af skuldabréfi sem var á gjalddaga í dag og hefur því verið samið um að fresta gjalddaga um þrjá mánuði. Félagið er yfirskuldsett og nema skuldir RÚV 5,5 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×