Lífið

Ekki einu sinni vinir á Facebook

Ólöf Skaftadóttir skrifar
 Kristín Eiríksdóttir, höfundur verksins, ásamt leikkonunum Elmu Lísu, Arndísi Hrönn og Birgittu.
Kristín Eiríksdóttir, höfundur verksins, ásamt leikkonunum Elmu Lísu, Arndísi Hrönn og Birgittu. Fréttablaðið/GVA
„Verkið fjallar um þrjár æskuvinkonur sem hafa ekki hist í tuttugu ár og eru ekki einu sinni vinkonur á Facebook. Svo tekur ein þeirra sig til og ákveður að sé tími á að þær hittist og taki út stöðuna. Afleiðingarnar eru verk í fullri lengd á sviði borgarleikhússins,“ segir Kristín Eiríksdóttir, leikskáld og rithöfundur, sem er höfundur verksins Hystory sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í mars.

„Ég er að vinna í dásamlegum hópi. Í verkinu leika Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir.

Ólafur Egilsson kemur svo til með að leikstýra verkinu,“ útskýrir Kristín.

„Arndís, Elma og Birgitta eru í leikfélagi sem heitir Sokkabandið. Þær nálguðust mig á besta tíma og báðu mig um að skrifa fyrir sig verk. Ég var um það leyti akkúrat að byrja á einu slíku og þetta small allt saman. Þetta hlýtur að hafa verið eitthvað í stjörnunum,“ segir Kristín, létt í bragði.

„Þetta er búið að vera mjög gott samstarf og hreinlega mjög gefandi félagsskapur,“ segir Kristín og hlær.

En Kristín er með mörg járn í eldinum.

„Svo er ég að gefa út ljóðabókina Kok sem kemur út í haust. Hún er í umbroti núna. Þetta er ljóðabók með teikningum eftir mig og ég hlakka mikið til,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×