Innlent

Ekki dregur úr flæði hrauns undir Bárðarbungu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Egill
Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og verið hefur undanfarið og jarðskjálftavirkni er áfram mikil. Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom fram að frá hádegi á miðvikudag hafa um 150 skjálftar mælst við Bárðarbungu og sá stærsti varð í morgun. Var hann 5,4 stig.

Niðurstöður fundarins voru birtar á Facebook síðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands í dag.

GPS stöðin í öskju Bárðarbungu sýnir að töluvert hefur dregið úr hraða sigsins í öskjunni. Þó sýna mælingar að rúmmál sigsins vex með sama hrað og verið hefur. Það bendir til þess að ekki dragi úr flæði kviku undan Bárðarbungu.

Búast má við gasmengun suðvestur af gosstöðvunum í dag. Frá Hvolsvelli austur að Skaftafelli. Á morgun má búast við henni frá Mýrdal að Skaftafelli.

Þrír möguleikar eru taldir líklegastir í framvindu mála á gosstöðvum.

Að gosið fjari út og öskjusig í Bárðarbungu hætti.

Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.

Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×