Gagnrýni

Ekki bara grín

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Bækur

Aflausn

Yrsa Sigurðardóttir

Útgefandi: Veröld

Prentun: Oddi

Fjöldi síðna 363

Kápa: Ragnar Helgi Ólafsson

Síminn pípir og tilkynnir að nýtt snapp sé komið frá Stellu, sextán ára. Vinir hennar svara kalli símans en bregður í brún þegar myndskeiðið reynist sýna grófar misþyrmingar á henni sjálfri, biðjandi fyrirgefningar inni á klósetti í bíóinu þar sem hún er að vinna. Þegar lögreglan fær veður af snappinu er Stella löngu horfin og síminn hennar líka og aðeins blóðslóð og upptaka úr öryggismyndavélinni í bíóinu er til frásagnar um afdrif hennar.



Þannig fer glæpamálið í nýjustu sögu Yrsu Sigurðardóttur af stað og teygir sig fljótlega í ákveðna átt, nefnilega að einelti, ósýnilega glæpnum sem allt of oft er afgreiddur sem stríðni, barnabrek eða ?bara grín?. ?Grínið? sem lýst er í bókinni felst meðal annars í félagslegri útskúfun og því að segja unglingum að þau séu ógeðsleg og eigi skilið að drepast, stofna vefsíður í þeirra nafni og setja þar inn vafasamt efni og fleira í þeim dúr.

Þessar lýsingar Yrsu eru því miður engar ýkjur heldur beinar tilvitnanir í raunveruleg dæmi. Svo má auðvitað ekki gleyma því að einelti er eldra en internetið og fjöldi fólks gengur um með sár á sálinni og jafnvel víðar vegna ítrekaðs aðkasts skólafélaga sinna í æsku og að einelti lifir góðu lífi á vinnustöðum og í garð minnihlutahópa.

Yrsa tekur á þessu brýna samfélagsmálefni af þekkingu og færni og sýnir inn í heim grimmdar og þjáninga á einstakan hátt. Þrælslund símanotenda gagnvart tækjunum sínum fær einnig sinn skerf af gagnrýni.

Þrátt fyrir þessi efnistök er Aflausn þó auðvitað fyrst og fremst glæpa- og spennusaga. Við höldum áfram að fylgjast með persónunum sem við kynntumst í DNA og Soginu, lögreglufólkinu Huldari og Erlu og sálfræðingnum Freyju og samskiptum þeirra, ástum og misheppnuðum tilraunum til að ná tökum á lífi sínu.

Persónurnar eru vel skrifaðar, og amstur þeirra í senn hlálegt og heiðarlegt. Eins og Yrsu er von og vísa er plottið þétt og frumlegt og vindur ofan af sér í hárréttum spennustuðli allt til enda.

Talandi um grín, eitt af því sem hefur verið fjarverandi í fullorðinsbókum Yrsu Sigurðardóttur, en lesendur barnabóka hennar sakna, er fyndnin sem Yrsa kunni svo sannarlega að skrifa svo allur aldur veltist um af hlátri.

Þrátt fyrir alvarlegt umfjöll­unar­efni má sjá glitta í gamla grín­takta í Aflausn svo oft má skella upp úr yfir aðstæðum og tilsvörum.

Óhugnaðurinn sem Yrsa skrifar einnig svo prýðisvel er heldur aldrei langt undan, lýsingar sem fá hárin til að rísa og valda óbragði í munni. Óbragðið er þó mest yfir lýsingunum á því hversu grimm og úthugsuð börn geta verið í því að pynta jafnaldra sína sem ekkert hafa til saka unnið, nema kannski að vera aðeins öðruvísi.

Ég hef ekkert alltaf verið jafnhrifin af glæpasögum Yrsu og fundist þær ekki fara nógu vel út úr samanburðinum við barnabækurnar eða hryllingssögurnar. Það hefur þó breyst síðustu ár og þessi bók finnst mér eiga heima með allra bestu spennusögum sem eiga það sameigin­legt að teygja sig út fyrir ramma sögunnar og ávarpa samfélagsvanda sem brýn þörf er á að horfast í augu við.

Niðurstaða: Einkar góð glæpasaga þar sem efnistök, plott og persónusköpun koma saman í sögu sem heldur lesandanum fram á rauðanótt.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. nóvember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×