Lífið

Ekki auðvelt að hrista af sér barnastjörnustimpilinn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Jóhanna Guðrún Jónsdóttir segir að Eurovision hafi hjálpað henni að losna við stimpilinn að vera barnastjarna. „Já ég myndi segja að það hafi hjálpað mjög mikið. Það er ekkert auðvelt að hrista hann af sér,“ segir hún. 

Eurovision hjálpaði henni að sýna fólki að hún getur meira en bara verið barnastjarna; að hún sé alvöru tónlistarmaður. Frá þessu og fleiru segir hún í nýjasta þætti Eurovísis, þar sem hún mætti ásamt fyrrverandi kynninum Sigmari Guðmundssyni.

„Ég man eftir því þegar ég var að flytja Madonnulög á Broadway, það var svona Madonnu show, þá fannst fólki einmitt svona „þetta er bara Jóhanna Guðrún með hnútana, með snúðana í hárinu, af hverju er hún á nærfötunum að syngja Madonnu lög?“. Það var að trufla fólk svolítið en það var áður en ég fór út,“ segir Jóhanna.

Sigmar segir að Jóhanna hafi sannað sig í Eurovision. „Það sem gerist þarna úti fyrir þig er að allt í einu stekkur þú fram á stórt svið og tekur þetta lag algjörlega og massar það. Þetta er rosa flott og vandað lag. Þarna ertu í öðru hlutverki og kemur sterk inn sem alvöru listamaður þarna,“ segir hann.

Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×