Viðskipti innlent

Ekki ástæða til að hafa áhyggjur af verðhjöðnun

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands. 365/ÞÞ
Verðbólga mælist nú 1% og hefur ekki verið lægri í 16 ár. Dósent í hagfræði segir ekki ástæður til að hafa áhyggjur af verðhjöðnun. 

Verðbólga hefur ekki verið minni frá síðasta fjórðungi ársins 1998. Að húsnæðislið undanskildum hefur verðlag raunar lækkað um 0,3% undanfarna 12 mánuði, sem er mesta lækkun vísitölunnar á þann kvarða allt frá því í október 1967.

Verðbólgan hefur nú verið undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tíu mánuði í röð, eða frá því í febrúar á þessu ári.

Verðhjöðnun er almenn lækkun verðlags, sem sagt andstæða verðbólgu. Eitt helsta stjórntæki seðlabanka, vextir, verður óvirkt í verðhjöðnun því vextir geta ekki farið undir 0 prósent. Þetta er í raun það ástand sem ríkir í mörgum ríkjum Evrópusambandsins um þessar mundir.

Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði við Háskóla Íslands segir ekki hættu á verðhjöðnun hér á landi þótt verðbólgan sé lág. Hann segist búast við að verðbólguþrýstingur taki við sér á nýju ári eftir undirritun kjarasamninga. „Ekki til lengri tíma. Við höfum séð verðbólgu ganga niður á þessu ári sem stafar af hlutum eins og lækkandi olíuverði. Við höfum einnig séð að væntingar um lækkun vörugjalda hefur kallað fram afslætti í verslunum. Síðan er seinni hluti kjarasamninga eftir þannig að það hafa ekki miklar launahækkanir komið fram. Sé litið fram á næsta ár þá myndi ég halda við sjáum aukinn verðbólguþrýsting. Ég hef ekki áhyggjur af þessu. Kjarasamningar eru lausir eftir áramót og atvinnuleysi hefur gengið niður,“ segir Ásgeir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×