Erlent

Ekkert verður úr tillögum um Guggenheim-safn í Helsinki

Atli Ísleifsson skrifar
Teikningar af Guggenheim-safninu í Helsinki sem verður líklegast ekki að veruleika.
Teikningar af Guggenheim-safninu í Helsinki sem verður líklegast ekki að veruleika. Mynd/Moreau Kusonoki Architects
Borgarstjórn finnsku höfuðborgarinnar Helsinki hafnaði í nótt tillögu um að Guggenheim-safn verði reist við sjávarsíðuna í borginni.

Mikið hefur fjallað um kosti þess og galla að koma upp safninu en opinberir aðilar hafa verið tregir að leggja til fé til framkvæmdarinnar. Margir höfðu vonast til að með byggingu safnsins yrði hægt að lokka bæði ferðamenn og frekari erlenda fjárfesta til borgarinnar.

Finnska Wasabladet greinir frá því að tillagan hafi verið felld með 53 atkvæðum gegn 32.

Hugmyndir um safnið komu fyrst upp árið 2011 og mættu til að byrja með mikilli andstöðu. Hönnunarsamkeppni var þó haldin á síðasta ári þar sem tillaga frönsku arkitektanna Moreau Kusunoki varð fyrir valinu.

Stuðningsmenn hugmyndarinnar hafa sagt að framkvæmdin myndi hafa jákvæð áhrif á efnahags- og menningarlíf borgarinnar og benda á Guggenheim-safnið í spænsku borginni Bilbao hafi haft ómæld jákvæð áhrif á borgina eftir að það var opnað árið 1997.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands og leiðtogi hægriflokksins Sannra Finna, útilokaði fyrr í haust að fé úr sjóðum ríkisins yrði lagt í byggingu nýs Guggenheim-safns í Helsinki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×