Enski boltinn

Ekkert pláss fyrir Sakho í leikmannahópi Liverpool

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mamadou Sakho leikur ekki marga leiki til viðbótar í rauðu treyjunni ef marka má orð Klopp.
Mamadou Sakho leikur ekki marga leiki til viðbótar í rauðu treyjunni ef marka má orð Klopp. vísir/getty
Ferill franska landsliðsmannsins Mamadou Sakho hjá Liverpool virðist vera að lokum kominn en Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, segir að Sakho sé ekki inn í framtíðaráætlunum hans.

Sakho hefur ekkert komið við sögu á þessu tímabili en hann var dæmdur í bann um tíma á síðasta tímabili eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Var hann ekki dæmdur í bann en hann missti af lokakafla ensku úrvalsdeildarinnar sem og Evrópumótinu í Frakklandi.

Sakho var sendur heim úr æfingarferð Liverpool til Bandaríkjanna í sumar eftir að hafa verið óstundvís og mætt ítrekað seint á æfingar, í flug og í sameiginlega máltíð liðsins.

Aðspurður hvort einhver leikmaður yrði seldur frá liðinu sagði Klopp að enginn leikmaður sem skipti máli yrði seldur.

„Það er ekki á áætlun að selja neinn en hann er ekki hluti af leikmannahópnum og er því falur. Enginn úr leikmannahópnum sem ég nota verður seldur en aðrir leikmenn eru falir,“ sagði Klopp.

Sakho hefur verið orðaður við West Brom, Stoke og Mílanóliðin undanfarnar vikur en hann virðist eiga enga framtíð hjá Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×