Viðskipti innlent

Ekkert pláss fyrir litla viðskiptabanka á markaði

jón hákon halldórsson skrifar
Sigurður Atli Jónsson. Sameinaður banki fær nýtt nafn en þangað til verður hann kallaður MP banki Straumur.
Sigurður Atli Jónsson. Sameinaður banki fær nýtt nafn en þangað til verður hann kallaður MP banki Straumur. fréttablaðið/gva.
MP banki og Straumur hafa sameinast formlega eftir undirbúningsferli sem tók um það bil ár. Hluthafafundur var haldinn á mánudag þar sem ný stjórn var kjörin og bráðlega verður nýtt nafn bankans kynnt. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, verður forstjóri hins sameinaða banka.

Sigurður Atli segir að sérstaða sé lykilatriði við sameiningu bankanna. „Þessi samruni er að stórum hluta til þess að búa til enn frekari sérstöðu þessara tveggja fyrirtækja. Og það liggur fyrir að við erum með sterka stöðu á eignastýringarmarkaði og það verður burðarás í starfsemi nýs sameinaðs banka. Við erum einnig sérhæfð á öðrum sviðum,“ segir hann.

Sigurður Atli segir að í eignastýringu muni bankinn leggja áherslu á breiðan hóp viðskiptavina. Starfsemi félaganna tveggja, MP banka og Straums, falli mjög vel saman á því sviði. „Í dag er ekkert pláss fyrir litla viðskiptabanka. Annaðhvort verða þeir að vera sérhæfðir eða hafa kostnaðaryfirburði. Við erum sérhæfð og staðföst. Við leggjum ofuráherslu á að vera best á okkar sérsviði.“

Keppa ekki á öllum markaðnum

Sigurður Atli bendir á að MP banki hafi viðskiptabankaleyfi. „Við tökum við innlánum frá viðskiptavinum og við fjármögnum viðskiptavini okkar. Við keppum á ákveðnum sviðum en ekki á öllum bankamarkaðnum eins og hann leggur sig.“ Hann bendir jafnframt á að það sé leið sem MP banki hafi farið á undanförnum mánuðum.

Það urðu talsverðar mannabreytingar hjá Straumi í þessu sameiningarferli.

Er hægt að líta svo á að þetta hafi verið yfirtaka MP banka á Straumi, frekar en sameining?

„Nei, alls ekki. Þessi hugmynd kom fyrst upp fyrir um það bil ári og gerjaðist svo,“ segir Sigurður Atli. Hann bætir því við að forsvarsmenn Straums hafi stigið mikilvægt skref þegar þeir keyptu um það bil 20 prósenta hlut í MP banka í október í fyrra. Eftir það hafi vinnan varðandi sameiningu bankanna þróast og í rauninni hafi náðst samkomulag í kringum áramót og það samkomulag endað með sameiningunni.

„MP banki er mikið stærri hvað varðar efnahag og fjölda starfsfólks en annars er þetta fullkomlega á jafningjagrunni, mýkt hefur ríkt í samningaviðræðunum þótt báðir aðilar hafi verið markvissir og staðfastir. Það skapar sveigjanleika til lausna.“ Sigurður Atli segir að fyrir utan það að ná fram sameiginlegri stefnu þessara fyrirtækja og auka sérstöðu þeirra á markaðnum séu bein fjárhagsleg markmið með sameiningunni. Þau séu hagkvæmari rekstur og stöðugri tekjumyndun.

Skipurit nýja bankans
Tólf manns sagt upp

Á mánudag, fyrsta starfsdegi sameinaðs banka, var nýtt skipurit kynnt og jafnframt var lokið við hagræðingaraðgerðir með uppsögnum starfsfólks. Tólf starfsmönnum var sagt upp þann daginn, en áður höfðu fleiri hætt. Starfsmenn samstæðu MP banka og móðurfélags Straums voru 108 um síðustu áramót. Eftir hagræðingaraðgerðir á mánudag er sameiginlegur starfsmannafjöldi í kringum 85. Þetta þýðir því í heild um 20 prósenta fækkun. „Það er alltaf erfitt að fara í aðgerðir af þessu tagi og slæmt að horfa á eftir góðu starfsfólki, en þegar tvö fyrirtæki sameinast er slíkt almennt óhjákvæmilegt. Við höfum á að skipa afburða starfsfólki og nú taka við spennandi tímar við uppbyggingu sameinaðs banka.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðareignarhald á bankanum, verður það óbreytt eða reynt að fá fleiri fjárfesta að?

„Eignarhaldið á bankanum er alldreift. Það eru 60-70 aðilar, bæði einstaklingar og stofnanir, en þó mikill meirihluti í eigu einstaklinga. Ég hef ekki spáð í það hvort eignarhaldið muni breytast. Ég sé engin sérstök merki um það í augnablikinu,“ segir Sigurður Atli og bætir við að hugur eigenda bankans núna sé einkum við samrunann.

Stýrir bankanum til framtíðar

Aðspurður segist Sigurður Atli stefna að því að stýra sameinuðum banka til framtíðar. Sýn hans er einföld, að ávinningur fáist af sameiningunni og að viðskiptavinir fái góða þjónustu. „Ég vil ekki að það verði stofnanabragur á samskiptum okkar við viðskiptavini, við viljum ekki koma fram við þá af óbilgirni. Fjármálafyrirtæki þurfa, eðli málsins samkvæmt, að vinna í öllu eftir lögum og reglum en þeim hefur að auki hætt til þess að vera með full fastmótað skipulag og vinnulag. Við munum sýna mýkt í samskiptum okkar við viðskiptavini með það að markmiði að uppfylla þarfir þeirra. Til þess þurfum við að vera sveigjanleg og tilbúin að laga okkur að viðskiptavininum.“

Hvernig er bankaumhverfið, er þörf á meiri hagræðingu og hvernig upplifir þú þig í samkeppni við stóru bankana þrjá?

Sigurður Atli býst við því að í framtíðinni verði pláss fyrir sérhæfingu af ýmsum toga, en það verði líka pláss fyrir hagkvæma viðskiptabanka. „Það getur vel verið að hagræðið náist fram með sameiningu en það er samt mikilvægt að hafa í huga að það er fyrst og fremst stefna bankanna sem á eftir að móta velsæld þeirra fram á við.“ Sameining geti lagað rekstrarskilyrði banka en stefnan sé ekki mörkuð með sameiningunni. „Lykillinn að velgengni er staðfestan um það hvar þeir ætla að starfa á markaðnum og hverjir styrkleikarnir eru,“ segir Sigurður Atli.

Sérðu fyrir þér að fjármálafyrirtækjum fjölgi enn meira?

„Það sem við erum að sjá út um allan heim er að samkeppni hefðbundinna viðskiptabanka er ekki að koma úr bankaheiminum, heldur annars staðar frá. Úr tækniheiminum til að mynda. Þannig að ég held að það sé eðlilegt að menn fái að móta sína framtíð í breyttu umhverfi viðskiptabankastarfsemi,“ segir Sigurður Atli. Hann vekur athygli á að um nokkurra ára skeið hafi sparisjóðum verið að fækka. „Það hefur reynst erfitt að fjármagna það líkan og halda því gangandi. Sem er merki um það að leikreglurnar hafi breyst og menn þurfi að bregðast við. Og kannski ekki bara bregðast við heldur vera á undan breytingunum,“ segir hann.

Þetta sé vegna tækniþróunarinnar, en líka út af breyttu regluverki, til dæmis með hærri eiginfjárkröfum í bankastarfsemi. Það er, kröfum sem meðal annars voru settar sem viðbrögð við fjármálakreppunni. „Núna eru eiginfjárkröfurnar 15-18 prósent en voru kannski 8-10 prósent áður. Þetta er gjörbreyting og menn verða að laga sig að þeirri mynd,“ segir Sigurður Atli. Þetta þurfi að gera með hagræðingu og hugsanlega með sameiningum. En samkeppnin þurfi umfram allt að vera tryggð.

Við erum búin að vera í mikilli rússíbanareið síðustu 15 árin, eða frá einkavæðingu bankanna og svo með hruninu. Er ástandið orðið eðlilegt núna?

„Við höfum auðvitað glímt við sérstakar aðstæður hér út af hruninu, sem var auðvitað mjög stórt í okkar hagkerfi og reyndar líka stórt á alþjóðlegan mælikvarða. Ég held að við eigum eftir að fara í gegnum talsverðar breytingar,“ segir Sigurður Atli. „Nú erum við að sjá mjög mikilvæga áfanga, eins og líkur á því að fjármagnshöft verði afnumin. Það kallar á breytingar. Við eigum eftir að sjá verulegar eignatilfærslur vegna haftaafnámsins og við eigum eftir að sjá verulegar eignarhaldsbreytingar á fjármálafyrirtækjunum. Og maður hlýtur að ætla það að nýir eigendur komi með nýjar áherslur. Þannig að það er eiginlega ómögulegt að segja fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Það hefur verið rætt töluvert mikið um samskipti þín við mág þinn, Sigmund Davíð. Hvernig er samskiptum ykkar háttað og hefur umræðan um tengsl ykkar komið sér illa fyrir þig eða bankann?

„Okkar samskipti eru afskaplega góð. Ég er búinn að þekkja Sigmund Davíð í rúmlega 10 ár, frá því löngu áður en hann byrjaði í pólitík. Umræðan hefur ekki verið óþægileg fyrir mig og hefur engin áhrif haft á bankann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×