Lífið

Ekkert nema ljúfar minningar

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Þeir Ágúst og Helgi eiga margar góðar minningar frá ferli Ríó tríós.
Þeir Ágúst og Helgi eiga margar góðar minningar frá ferli Ríó tríós. Fréttablaðið/Vilhelm
Þegar við vorum að byrja þá hefði okkur aldrei grunað að við værum enn að spila tónlist 67 ára gamlir, fólk yfir sextugt var svo gamalt að það var bara á grafarbakkanum,“ segir Helgi Pétursson, einn meðlima Ríó tríós. Hálfrar aldar afmæli tríósins verður fagnað í Hörpu þann 23. október næstkomandi með glæsilegum tónleikum.

Helgi stofnaði tríóið ásamt skólabræðrum sínum úr Kópavoginum þeim Ólafi Þórðarsyni og Halldóri Fannari. Sá síðastnefndi hætti í bandinu þegar hann fór í tónlistarnám og í stað hans kom Ágúst Atlason sem hefur verið í bandinu allar götur síðan. Þeir Ólafur og Halldór eru báðir látnir, en þeir létust með tveggja mánaða millibili, fyrir tæpum fjórum árum, Ólafur eftir hræðilega árás sem hann varð fyrir og Halldór varð bráðkvaddur.





Tríóið árið 1972 þegar hárið var síðara og stundum skemmt allt upp í fimm sinnum á kvöldi þegar mest var.
Engir minningartónleikar

„Svona haga örlögin sér stundum,“ segir Helgi er blaðamaður sest niður með þeim Ágústi á kaffihúsi í Kópavoginum. Þeir segja það auðvitað skrítið að hafa ekki sinn gamla félaga Ólaf með sér að spila.

„Já, það er það. En hann hefði svo sannarlega viljað að við héldum tónleika og værum að spila. Og ekkert helvítis röfl um það, ekkert væl um sig eða nokkurn skapaðan hlut,“ segir Helgi brosandi þegar hann minnist vinar síns.

„Enda eru þetta engir minningartónleikar eða neitt slíkt, við erum bara að spila tónlistina okkar. Óli er örugglega búinn að sparka í rassgatið á okkur oft þó að við höfum ekki fundið fyrir því, segja okkur að hætta þessari leti og fara að spila meira. Hann var alltaf prímus mótor í því að gera eitthvað. Það eru ekkert nema ljúfar minningar þannig séð frá okkar árum saman. Lífið gengur sinn gang og ég er viss um að hann myndi vilja að við værum að spila meira,“ segir Helgi.

Skáldið gerir sér ferð í bæinn

Og það ætla þeir svo sannarlega að gera. Þeir komu fyrst fram sem Ríó tríó án Óla á 60 ára afmælistónleikum Kópavogsbæjar í sumar. „Þetta er tvöfalt tríó hjá okkur núna,“ segir Ágúst en með þeim á tónleikunum verða þeir Björn Thors, Snorri Helgason og Gunnar Þórðarson ásamt skáldinu Jónasi Friðriki Guðnasyni sem gerir sér sérstaka ferð frá Raufarhöfn í bæinn. 

„Og það gerist ekki oft,“ segir Ágúst. „Hann er skáld og hefur samið alla okkar texta ásamt því að semja fyrir marga aðra. Honum er hins vegar ekki mikið gefið um Reykjavík og kemur eiginlega aldrei í bæinn. Honum líður bara best á Raufarhöfn og við höfum tvisvar farið þangað til þess að spila fyrir hann. En hann ætlar að koma til Reykjavíkur núna til að vera með okkur á tónleikunum,“ segir Helgi.

Það er af nægu að taka af hálfrar aldrar ferli sveitarinnar. Þeir gáfu út 22 plötur og líklega liggja eftir þá yfir 200 lög. Þeir nutu fljótt mikilla vinsælda þegar þeir stigu fram á sjónarsviðið; unglingarnir með þjóðlagapoppið. „Þetta voru svo skemmtilegir tímar. Það var allt svo nýtt, við vorum fyrstir með svo margt,“ segir Helgi og Ágúst tekur undir. „Þetta eru gjörbreyttir tímar. Þetta var ekkert eins og er í dag, þarna þurfti maður að pikka lögin upp úr útvarpinu eða af plötum,“ segir Ágúst.





Það var gjarnan glatt á hjalla þegar Ríó tríó tróð upp.
Meðlimir Ríó tríós voru miklar stjörnur á Íslandi á sínum tíma og það var nóg að gera. „Í dag eru margir í tónlistarnámi og það er frábært. En það sem hefur versnað í dag er peningahliðin. Við spiluðum mikið en fengum líka vel borgað. Við seldum líka plötur í 25-30 þúsund eintökum og fengum vel greitt fyrir. Í dag er þetta allt öðruvísi. Það er allri tónlist stolið og tónlistarmenn fá lítið greitt,“ segir Helgi.

Þeir félagarnir voru í meira en fullri vinnu við spilamennskuna en voru allir í öðrum störfum með. „Það tíðkaðist ekki í þá daga að vera bara í tónlist, eða það voru allavega fáir sem gerðu það,“ segir Helgi.

Það var nóg að gera og farið landshornanna á milli í litlum rellum, í öllum veðrum til þess að gleðja skemmtanaþyrsta Íslendinga. „Við vorum stundum að spila á þremur stöðum, sama kvöld. Og yfirleitt allavega fimmtudag, föstudag og laugardag,“ segir Ágúst. „Ég held að mest höfum við spilað á fimm stöðum sama kvöld,“ segir Helgi. „Ég man eftir einum 17. júní þar sem við byrjuðum á að fljúga til Sauðárkróks um hádegi, þaðan á Höfn í Hornafirði og þaðan beint á Ólafsfjörð,“ segir Ágúst hlæjandi.

Aldrei rifist

Aðspurðir segja þeir að samstarfið hafi alltaf verið gott. „Ég held við höfum aldrei rifist. Þetta gat í mesta lagi farið út í eitthvert tuð og þá var það bara tekið til greina. En aldrei neinn listrænn ágreiningur eða neitt slíkt,“ segir Helgi. „Við vorum sæmilega reglusamir, settum okkur reglur um að spila ekki undir áhrifum áfengis eða þunnir og vera stundvísir. Við bárum allir það mikla virðingu fyrir hver öðrum að við stóðum alltaf við þetta,“ segir Helgi og heldur áfram: „Það er líka lykillinn að þessu hvað vináttan er sterk. Við vorum alltaf saman og miklir vinir.“ 

Þeir lögðu alltaf mikið upp úr því að vera vel æfðir og gera hlutina vel. Útsetningar voru útpældar, ekkert tilviljunum háð og þeir segjast stoltir geta hlustað á gamlar plötur. „Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að æfa vel, við gerðum einu sinni þau mistök að mæta með illa æft lag á einhvern voðalega fínan galakvöldverð á Hótel Sögu. Við byrjuðum að spila lagið og enginn af okkur mundi textann. Ekki einu sinni Gústi sem er nú oft kallaður harði diskurinn því hann man alla texta. Við rifjuðum þetta oft upp með hryllingi,“ segir Helgi hlæjandi. „Það hefur verið svona gegnumgangandi hjá okkur að æfa alltaf rosalega vel. Það eru engar tilviljanir í þessu. Og það eru kannski þau skilaboð sem maður hefur til fólks að þetta gerist ekkert af sjálfu sér.“

Þeir segja það líka hafa skipt miklu máli hvað þeir hafi alltaf haft gott fólk í kringum sig. „Við vorum rosalega heppnir að Gunnar Þórðarson kom mjög snemma í samstarf við okkur þó að hann væri á kafi í Hljómum og stórpoppari á þeim tíma. Hann útsetti og spilaði með okkur á gítar þegar við tókum upp plötu í Háskólabíó 1969 og þá var það í fyrsta sinn sem hljómleikaplata hafði verið tekin upp „live“. Hann var síðan alltaf með, hafði mjög gaman af þessum raddsetningum og öðru slíku sem hann stjórnaði líka,“ segir Helgi.

Eftirminnileg Bandaríkjaferð

Það er margt eftirminnilegt frá ferlinum. Til dæmis fjögurra mánaða ferð sem Ríó tríó fór til Bandaríkjanna árið 1973 sem fulltrúar Íslands. „Við vorum beðnir um að fara og spila í amerískum háskólum,“ segir Helgi. „Við keyptum okkur gamla skólarútu, settum borð og stóla aftast í hana og keyrðum á milli,“ segir Ágúst. Það var margt öðruvísi í Bandaríkjunum en á Íslandi á þessum tíma. „Það var verið að bjóða okkur alls konar grænar og gular pillur, þetta og hitt að reykja en við héldum okkur bara við gamla góða vodkann. Og vorum í lopapeysum,“ segir Helgi. 

„Já, og bjórinn. Þarna fengum við bjór sem var ekki til á Íslandi á þeim tíma,“ segir Ágúst. „Í eitt skiptið fjárfestum við í Coors-öli því okkur var sagt að hann væri svo flottur og eftirsóttur. Við keyptum 20 kassa og ætluðum að selja þá á tónleikum hjá okkur en ég held við höfum ekki selt einn einasta kassa heldur drukkið hann sjálfir í rútunni,“ segir Helgi og þeir skella báðir upp úr.





Í Háskólabíó 1969 þar sem fyrsta "live" tónleikaplatan var tekin upp.
Þeir keyrðu um Bandaríkin á skólarútunni og komu fram á kvöldum þar sem fór fram sérstök Íslandskynning. „Það var voða fínt í skólunum þar sem var sett upp einhver kynning á landinu, myndir sýndar og voða gaman. Við lentum svo í því að spila í Chicago minnir mig og komum á eftir hljómsveitinni Manfred Man en á þeim tíma voru þeir alveg rosalegt sýruband og áhorfendur eftir því. Við komum svo á eftir með kontrabassa og kassagítar að spila íslensk þjóðlög,“ segir Helgi hlæjandi.





Tónleikar Ríó Tríósins í Salnum í Kópavogi árið 2010.
„Liðið var svo útúrflippað og vissi ekkert hvað var í gangi. Það hélt það væri bara lent á sýrutrippi lífs síns,“ segir Helgi. „Við að spila þjóðlagapopp á íslensku og á bak við voru myndir af klakabrynjuðum togurum á Íslandsmiðum,“ segir Ágúst og þeir hlæja að minningunni.

Á tónleikunum í Hörpu verður öllu tjaldað til. „Við erum mjög spenntir fyrir þessu. Það verður gaman að taka lögin okkar, það er alltaf gaman að spila og við verðum að gera meira af því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×