Innlent

Ekkert lát á uppgangi golfsins á Íslandi

Jakob Bjarnar skrifar
Brynjar og svo þrjár kempur á Keilisvellinum: Kristín Pétursdóttir, Brynjar Níelsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Brynjar og svo þrjár kempur á Keilisvellinum: Kristín Pétursdóttir, Brynjar Níelsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
„Svona starf býðst ekki reglulega. Ekki af þessu kaliberi,“ segir nýr framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands: Brynjar Eldon Geirsson.

Í dag var tilkynnt að hann yrði næsti framkvæmdastjóri GSÍ, hann þótti hæfastur fimmtíu umsækjenda. Hörður Þorsteinsson, sem gegnt hefur þessu starfi í 16 ár, lætur af störfum.

Brynjar, sem undanfarin tvö ár hefur starfað í Þýskalandi, sem íþróttastjóri Märkischer Golfclub Potsdam í Berlín, segist hafa stefnt að því undanfarin ár að færa sig úr golfkennslu í meiri stjórnun.

Þekkir hverja þúfu

„Ég hef mikla reynslu á öllum þessum sviðum sem golfhreyfingin starfar á, hef verið á golfvöllum frá því ég var gutti og þekki hverja þúfu,“ segir Brynjar í viðtali við Vísi.

Brynjar segir þetta númeri stærra en sú staða sem hann hefur gegnt úti í Þýskalandi. „Þetta er sannur heiður og stærra en það sem ég hef gert til þessa. Áskorun,“ segir Brynjar spurður hvers vegna hann hafi viljað söðla um:

„Já, svo er það þetta klassíska, maður hefur verið úti tæp tvö ár, og það er öðruvísi fyrir börnin og maður vill að þeim líði vel,“ segir Brynjar sem á þrjú börn. „Þau hafa lært mikið á þessu ári en ýmislegt sem þau sakna að heiman. Og maður verður að taka tillit til þeirra með það.“

Vill sjá fjölþættari starfsemi golfklúbba

Brynjar segir helstu verkefnin sem við blasi þau að skapa góða samstöðu innan hreyfingarinnar og fá klúbbana til að vinna saman. „Sambandið er með gríðarlega flotta stefnu, bæði í afreksmálum sem og málefnum golfhreyfingarinnar almennt, sem ég þarf á fá að fara með og kynna klúbbunum vel og vandlega; reyna að leiða klúbbana inná þá braut. Lögð hefur verið mikil vinna í þessa stefnu, þessi plögg, stefnumótun sambandsins, og það er kannski mitt hlutverk að hjálpa klúbbunum að vinna samkvæmt þessari hugsjón og samræma.“

Valdís Þóra og Ólafía Þórunn. Ísland á orðið gott landslið kvenna í golfi sem mun standa í stórræðum á sumri komandi.
Landslagið er að breytast að sögn Brynjars. Golfklúbbar eru orðnir miklu meira en bara golfvellir víða í Evrópu, þetta eru útivistarsvæði og þar sér Brynjar möguleikar að stækka starfsemi golfklúbbanna og gera fjölbreyttar. „Klúbbarnir eru með verðmæt landsvæði út um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu til dæmis og nýta má þessi svæði undir margt annað en golf, og það er eitthvað sem golfhreyfingin myndi líka hagnast á.“

En, golfvöll í Vatnsmýrina þá loks er flugvöllurinn fer?

„Ekki spurning. Golfvöll í Vatnsmýrina. Maður þekki það marga Valsmenn sem spila golf að þeir myndu örugglega taka vel í það. Það er góð hugmynd.“

Geirsbræður sameinaðir á ný

Þegar blaðamaður Vísis var að flækjast á skrifstofum sambandsins, að sinna golfgonzóblaðamennsku, fékk hann ekki betur séð en þar væri fyrir bróðir Brynjars.

„Já, bróðir minn Arnar hefur verið þarna þarna í tíu til fimmtán ár, sem skrifstofustjóri. Hann sér um golf.is vefinn.“

Þannig að þið bræður eruð sameinaðir á ný?

„Það er bara svoleiðis,“ segir Brynjar og glottir við tönn. Þriðji bróðirinn er Logi og svo eiga þeir yngri systur sem heitir Nína. „Bræðurnir eru í golfinu en mismikið þó.“

Verðug verkefni standa fyrir dyrum

Brynjar segist fullur tilhlökkunar að koma heim og takast á við þetta mikla verkefni sem er að stýra Golfsambandi Íslands. Og það stendur mikið til: „Evrópumót kvenna sem haldið er í golfklúbbnum Oddi í sumar, gríðarlega stórt, þau gerast ekki mikið stærri áhugamannamótin. Gaman verður að fylgjast með okkar stelpum þar. Við eigum orðið mjög flott kvennalandslið. Svo er frábært að sjá að Íslandsmótið í höggleik er á Akureyri og ég man ekki hvenær það var síðast þar, langt síðan, en ánægjulegt að það sé komið þangað; gaman að spila golf á Akureyri. Mikill metnaður þar og uppgangur þar síðustu ár, bæði með völlinn og allt í kringum þeirra starf.“

Brynjar telur það góða hugmynd að setja upp golfvöll í Vatnsmýrina.
Á árunum 2000 til 2008 varð mikil golfsprengja: Áhuginn gaus upp og allir golfklúbbar voru fullir og biðlistar hjá þeim mörgum. Heldur hefur þetta gos verið í rénun nú á síðustu árum, þó Brynjar vilji ekki gera mikið úr því. Og hann kann skýringar á þessum mikla áhuga.

Tiger helsta ástæðan fyrir golfsprengingunni miklu

„Ástæðan fyrir því að golf blómstraði ansi víða á þessum árum var að vinur okkar Tiger Woods var fremsti íþróttamaður veraldar og nefndur í sömu setningu og Mikael Jordan. Þetta hefur dalað. Og það hefur sitt að segja. Þegar stórstjörnur í íþróttum falla út. Munum þegar Jordan hætti í körfubolta, þá voru margir sem hættu að nenna að horfa á.“

Ungir menn eru að koma upp nú, svo sem Rory og Spieth, sem Brynjar segi að eigi eftir að verða súperstjörnur. „En, það var einhver extra sjarmi yfir Tiger frá upphafi til enda. Ég held að það sé ástæðan fyrir þessari sprengju, golfíþróttin fékk einfaldlega meiri athygli vegna hans.“

Tiger. Brynjar rekur golfsprenginguna á árunum 200 til 2008 til superstjörnunnar og þeirrar athygli sem hann naut.Vísir/Getty
Klúbbarnir voru stútfullir, biðlistar en nú virðist meiri samkeppni milli klúbba um meðlimi?

„Já, og nei. Kannski búið að tala of neikvætt um þetta. Hefur verið að rúlla í jákvæða átt stöðugt. Auðvitað verða kaflar þar sem þetta stendur í stað, en þá er hreyfingarinnar að bæta í og auka starfið. En við erum ekki að tala um þetta sé eitthvað vandamál.“

Golfklúbbarnir hafa verið að auka starfsemi sína

Brynjar segir fólk farið að dreifast betur í klúbbana. Þegar mest lét voru kannski þrír til fjórir klúbbar á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið var að flæða út um. „Eitt er sem ekki hefur verið rætt sem er að GKG, GR og í Mosfellsbæ hafa klúbbarnir verið að bæta við sinn holufjölda. Þar hefur verið bætt við völlum og hefur svo dregið úr biðlistunum.“

Golf er næst stærsta íþróttin á Íslandi. Í klúbbana eru skráðir 16 til 17 þúsund manns en það er metið svo að alls stundi um 30 þúsund manns golf. „Hreyfingin hefur vaxið gríðarlega á undanförnum 15 árum og ég skil ekki áhyggjur manna, einhvern tíma tekur svona búmm enda, það hefur gerst allstaðar, í Þýskalandi, á Englandi ... en, það er enn fjölgun,“ segir Brynjar sem nú vinnur að því að ganga frá ýmsum lausum endum, hann vill skilja vel við í Þýskalandi, og svo tekur hann við 1. mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×