Innlent

Ekkert lát á hlýindum: 13 stiga hiti á Hvammi undir Eyjafjöllum í nótt

Birgir Olgeirsson skrifar
Áframhaldandi hlýindi verða yfir landinu næstu vikuna samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.
Áframhaldandi hlýindi verða yfir landinu næstu vikuna samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Vísir/GVA
Það er sagan endalausa, ekkert lát er á hlýrri sunnan átt úr Atlantshafi og njóta Íslendingar góðs af því, allavega þeir sem eru ekki mikið fyrir snjó og þurfa jafnvel ekki að sjá um skíðasvæði.

Suðlægar áttir hafa verið ríkjandi í allt haust og hefur norðan áttin aldrei náð sér á strik. Því hefur hlýtt loft sunnan úr höfum leikið við Íslendinga en í nótt fór hiti í þrettán stig hjá veðurathugunarstöðvunum á Hvammi undir Eyjafjöllum og á Öræfum.

Klukkan tíu í morgun hafði hiti þar fallið nokkuð, var kominn í átta stig á Öræfum og ellefu stig á Hvammi.

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er ekkert lát á þessum hlýindum, og verða Íslendingar meira og minna í mildu lofti næstu vikuna.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Austan og norðaustan 8-15 m/s. Rigning eða slydda, en yfirleitt þurrt NV- og V-lands. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.

Á laugardag:

Norðaustan 8-15 m/s, hægari síðdegis. Rigning eða slydda A-til á landinu, annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 1 til 7 stig, en vægt frost í innsveitum N-lands.

Á sunnudag:

Gengur í suðaustan 10-15 með rigningu, en hægari og þurrt á NA-verðu landinu. Hiti 1 til 8 stig.

Á mánudag:

Sunnanátt og skúrir eða él, en léttskýjað á N- og A-landi. Kólnandi í bili.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu og mildu veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×