Lífið

Ekkert kvöld eins

Hjördís Lilja Örnólfsdóttir notar helgarnar til að hlaða batteríin og eiga ljúfar stundir með manni sínum og dóttur.
Hjördís Lilja Örnólfsdóttir notar helgarnar til að hlaða batteríin og eiga ljúfar stundir með manni sínum og dóttur. mynd/steve lorenz
Dansarinn Hjördís Lilja Örnólfsdóttir stígur á svið með Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu í kvöld. Hún segist heppin að eiga barn sem er algjör B-manneskja og geta kúrt lengi frameftir um helgar.



Hvað er það sem þú gerir alltaf um helgar?

Ég reyni að slappa vel af og eiga góðar stundir með dóttur minni og manninum mínum.

Hvað ætlar þú að gera sérstakt um þessa helgi?

Í kvöld ætla ég að frumsýna dansverkið Emotional með Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu og get ekki beðið eftir að sýna áhorfendum þetta magnaða dansverk. Ég er afar stolt af þessari frábæru sýningu og hvet fólk til að ná sér tímanlega í miða því sýningarnar verða bara fimm.

Hvar finnst þér best að vera um helgar?

Mér finnst best að vera heima hjá mér eða í góðra vina hópi.

Vakirðu fram eftir um helgar?

Já, ég vaki yfirleitt aðeins lengur um helgar, annaðhvort vegna gleðskapar eða þá að ég horfi á góða mynd.

Ertu árrisul eða sefur út?

Mér finnst voða gott að fá að sofa út um helgar og hef kost á slíku því ég er svo heppin að eiga barn sem er algjör B-manneskja.

Hver er draumamorgunverðurinn?

Ég elska vel útilátinn morgunverð eins og bröns þar sem maður fær sitt lítið af hverju, bæði matarkyns og sætmeti.

Hvernig er dæmigert laugardagskvöld í þínu lífi?

Ég á mér enga sérstaka laugardagsrútínu og því er ekkert laugardagskvöld í mínu lífi eins.

Ertu með nammidag og hvert er uppáhaldssælgætið þitt?

Ég á mér engan sérstakan nammidag heldur borða sætt þegar mig langar í sætindi. Ég reyni þó að borða ekki of mikið í einu. Í mestu dálæti er ís og uppáhaldssúkkulaðið Ritter Sport í næstum öllum bragðtegundum.

Hvað maularðu í sjónvarpssófanum á kósíkvöldi?

Það fer svolítið eftir því í hvernig stuði ég er en oftast verður ofangreint uppáhaldsnammi fyrir valinu.

Heldurðu hvíldardaginn heilagan?

Nei, það er vandasamt því ég er mjög oft með sýningar á sunnudögum.

Ferðu í sunnudagsmessu?

Nei, ég fer ekki nógu oft í kirkju en er þó byrjuð að fara með dóttur mína í sunnudagaskólann.

Hvað verður með sunnudagskaffinu og með hverjum drekkur þú það?

Örugglega gómsæt kaka sem ég nýt með manni mínum og dóttur og kannski bætast mamma mín og bróðir í hópinn.

Til hvers eru helgarfrí, að þínu mati?

Fyrir mig sem dansara eru helgarfríin til að hvíla líkama og sál og endurhlaða batteríin fyrir komandi viku. Síðast en ekki síst eru helgarnar kærkomnar til að verja heilum dögum með barninu mínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×