Fótbolti

Ekkert Indlandsævintýri hjá Eiði Smára

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári kom við sögu í tveimur leikjum á EM í Frakklandi.
Eiður Smári kom við sögu í tveimur leikjum á EM í Frakklandi. vísir/vilhelm
Ekkert verður af því að Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, leiki með Pune City á þessu tímabili í indversku ofurdeildinni. Þetta kemur fram í þarlendum fjölmiðlum.

Eiður meiddist á ökkla á æfingu og missir af tímabilinu á Indlandi sem hefst 1. október og lýkur 4. desember.

„Ég fann verk í ökklanum fyrir nokkrum dögum og það reyndist alvarlegra en ég hélt,“ sagði Eiður.

„Ég vil þakka stjórn Pune City, liðsfélögum mínum og þjálfara fyrir traustið sem þeir sýndu mér. Fólkið og stuðmennirnir hérna, sem buðu mig velkominn, áttu betra skilið en því miður er tímabilið búið hjá mér. Ég hlakka til að snúa aftur í nánustu framtíð og óska Pune City góðs gengis á tímabilinu sem framundan er.“

Eiður er ekki eini leikmaður Pune City sem heltist úr lestinni á undirbúningstímabilinu því Kamerúninn Andre Bikey er einnig meiddur og verður ekkert með í vetur.

Forráðamenn Pune City þurfa því að hafa hraðar hendur við að finna staðgengla fyrir Eið og Bikey. Fyrsti leikur liðsins er gegn Mumbai City á heimavelli 3. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×