Skoðun

Ekkert hungur árið 2030

Bryndís Eiríksdóttir skrifar
Einn morguninn sat ég ásamt þriggja ára dóttur minni að borða morgunmat þegar hún rekur augun í myndir við blaðagrein um hungursneyð í Suður-Súdan. Hún starði á mynd af alvarlega vannærðum börnum á hennar aldri. Við ræddum aðeins um myndina og ég reyndi að útskýra fyrir henni að þessi börn fái ekki nægan mat að borða. Slíkt er erfitt fyrir barn á hennar aldri að skilja, hafi það aldrei þurft að upplifa þess konar skort. Eftir smá umhugsun lagði hún til að við færum eftir leiksskóla og keyptum mat handa þessum börnum – bara að málið væri svo einfalt. 

Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) er í dag framleitt nægilegt magn af matvælum til að fæða alla jarðarbúa. Þrátt fyrir það er talið að einn af hverjum níu í heiminum búi við hungur og þjáist af vannæringu, meiri hluti þeirra býr í minna þróuðum ríkjum. Áskorunin snýst því ekki einungis um að framleiða meiri matvæli heldur þarf að tryggja aðgengi allra að öruggum og næringarríkum matvælum allt árið um kring. 

Ekkert hungur árið 2030 erannað markmiðið af 17 nýjum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem samþykkt voru haustið 2015. Markmiðið miðar að því að „útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.“ Undirmarkmið hafa verið sett m.a. þau að fyrir árið 2030 á að tryggja eðlilega starfsemi matvælamarkaða til þess að takmarka óstöðugleika í matvælaverði í heiminum. Tvöfalda á framleiðni í landbúnaði og auka tekjur smærri matvælaframleiðenda, einkum kvenna, fjölskyldubýla, frumbyggja, hirðingja og fiskimanna, með því tryggja þeim aðgengi að fjármagni, landi, aðföngum og mörkuðum. Fyrir árið 2030 á einnig að tryggja sjálfbært fyrirkomulag matvælaframleiðslu í heiminum.

Ekkert hungur árið 2030 er vissulega stórt markmið og ljóst er að við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum m.a. uppskerubrestum vegna þurrka, flóða og annarra náttúruhamfara ásamt stíðsátökum, sem koma í veg fyrir stöðuga matvælaframleiðslu og draga úr fæðuöryggi. En til þess að ná árangri er nauðsynlegt að setja sér markmið og er nú ljóst að töluverður árangur náðist með Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem runnu út árið 2015. Nú hafa ný markmið tekið við sem samþykkt voru af aðildaríkjum Sameinuðu þjóðanna, nú er brýnt að fylgja þeim eftir.

Nánar verður fjallað um markmiðið „Ekkert hungur árið 2030“ á opnum fundi

á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi mánudaginn 12. september kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. 

Frekari upplýsingar um Heimsmarkmiðin má finna á www.un.is

 




Skoðun

Sjá meira


×