Innlent

Ekkert hefur verið ákveðið um útfærslu á sparnaðinum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eygló Harðardóttir og Soffía Eydís Björgvinsdóttir kynntu hugmyndir verkefnastjórnarinnar á fundi í vor.fréttablaðið/Daníel.
Eygló Harðardóttir og Soffía Eydís Björgvinsdóttir kynntu hugmyndir verkefnastjórnarinnar á fundi í vor.fréttablaðið/Daníel.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir að þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra séu sammála um mikilvægi þess að koma á fót framtíðarhúsnæðissparnaðarkerfi. „En nákvæmlega hvernig það yrði útfært liggur ekki fyrir,“ segir Eygló.

Sérfræðihópur á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða leggst algjörlega gegn hugmyndum verkefnahóps á vegum félagsmálaráðherra sem lagði til í maí að heimild til þess að nýta séreignarsparnað til greiðslu húsnæðislána yrði gerð varanleg.

Slíkt fyrirkomulag, til skamms tíma, var hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem samþykktar voru á vorþingi.



Eygló Harðardóttir
„Fjármálaráðherra, sem fer með málefni sem snúa að lífeyrissparnaði landsmanna, hafði raunar þegar tekið af skarið því hann taldi ekki rétt að tengja húsnæðissparnað við séreignarsparnað til langs tíma,“ segir Eygló og bendir á að hún hafi sjálf sem þingmaður lagt fram frumvarp um sérstakar skattaívilnanir vegna húsnæðissparnaðar.

„Þannig að það var önnur hugsun þar en kemur fram í tillögum verkefnastjórnarinnar,“ segir Eygló. Í gagnrýni sérfræðihóps lífeyrissjóðanna segir að séreignarsparnaður sé nauðsynlegur þáttur til að tryggja eftirlaunaþegum nægilegan lífeyri. Þá sé gert ráð fyrir að eftirlaunaþegum muni fjölga mikið á næstu árum. Án séreignarsparnaðar yrði byrðin því meiri fyrir þá sem eru á vinnumarkaði. 

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tekur undir gagnrýni sérfræðihóps lífeyrissjóðanna. Hann bætir við að sú leið sem verkefnastjórnin vill fara sé ekki góð því hún skapi mikinn aðstöðumun milli þeirra sem fara snemma að vinna og skapa sér tekjur og svo hinna sem fara í framhaldsnám.

„Því þetta er náttúrulega tengt atvinnuþátttöku. Og þetta þýðir þá að ungt fólk sem fer í háskólanám getur verið að koma 25-26 ára út úr háskóla og á ekkert. Er ekki búið að geta myndað neinn rétt meðan þeir sem fara á vinnumarkaðinn eru búnir að mynda réttinn. Þetta eykur aðstöðumun þeirra sem eru í skóla og hinna sem eru á vinnumarkaði,“ segir Árni Páll.

Það sé nákvæmlega ekki það sem eigi að gera því að á Íslandi sé færra fólk með framhaldsmenntun en í nokkru öðru ríki í Evrópu. Að mati Árna Páls væri nær að auka fjölda fólks sem er með framhaldsmenntun í stað þess að skapa hvata fyrir fólk til að hætta í skóla og fara að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×