Erlent

Ekkert bendir til saknæmi Clinton í tengslum við árás í Benghazi 2012

Atli Ísleifsson skrifar
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata og fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata og fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Engar vísbendingar hafa komið fram sem benda til misgjörða eða saknæmi Hillary Clinton, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í tengslum við árás á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í líbísku borginni Benghazi í september 2012.

Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, en rannsóknin hefur verið ein tímafrekasta, kostnaðarsamasta og umdeildasta í sögu bandarískra stjórnmála.

Sendiherra Bandaríkjanna og þrír Bandaríkjamenn til viðbótar létu lífið í árásinni.

Í frétt New York Times segir að í skýrslunni, sem er 800 blaðsíður að lengd, komi einhverjar nýjar upplýsingar fram um árásina þar sem varnarmálaráðuneytið, leyniþjónustan CIA og utanríkisráðuneytið bandaríska eru veittar átölur fyrir að hafa ekki gert sér grein fyrir raunverulegu ástandi öryggismála í borginni og að starfrækja skrifstofur í Benghazi þar sem ekki hafi verið mögulegt að tryggja öryggi starfsmanna.

Trey Gowdy, þingmaður Repúblikana, var formaður nefndarinnar sem starfað hefur í tvö ár.

Í skýrslunni er utanríkisráðuneytið einnig gagnrýnt þar sem sem ráðuneytið hefði í raun heimilað aðilum á borð við Clinton að ákveða hverjir myndu stýra rannsókn ráðuneytisins á árásinni.

Í skýrslu þingnefndarinnar er hins vegar ekki dregið í efa að bandarískt herlið í Evrópu hefði ómögulega getað haldið til Benghazi til að bjarga þeim sem féllu í árásinni í tæka tíð.


Tengdar fréttir

Árásin í Benghazi var hryðjuverk

Ljóst er að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda voru viðriðnir árás á ræðismannaskrifstofu Bandaríkjanna í Líbíu í september. Sendiherra Bandaríkjanna í landinu lést í árásinni ásamt þremur öðrum.

Bandaríkjamenn rannsaka árásina í Benghazi

Bandaríkjamenn hafa hafið rannsókn á andláti sendiherra síns í Líbýu og nokkurra annarra í árás á sendiráðskrifstofu Bandaríkjanna í borginni Benghazi.

Sendiherra Bandaríkjanna drepinn í Líbýu

Sjálfur sendiherra Bandaríkjanna í Líbýu var meðal þeirra sem létu lífið þegar ráðist var á sendiráðsskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi í Líbýu í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×