Handbolti

Ekkert ákveðið með Aron fyrr en á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Engin ákvörðun verður tekin um hvort að Aron Pálmarsson spili með íslenska landsliðinu gegn Dönum á HM í handbolta fyrr en á morgun.

Þetta staðfesti Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, í samtali við íþróttadeild í morgun. Blaðamannafundur íslenska landsliðsins hefst klukkan 11.00 að íslenskum tíma.

Aron var með einkenni heilahristings eftir höfuðhögg sem hann fékk í leik Íslands gegn Tékklandi á fimmtudag. Ísland tapaði þeim leik en tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum með sigri á Egyptalandi í gær.

Aron missti af leiknum gegn Egyptalandi og Örnólfur Valdimarsson, læknir íslenska landsliðsins, sagði að aðeins væri hægt að meta möguleika Arons á að spila aftur í mótinu út frá líðan hans og hvernig hann bregst við álagi.

„Það er líklegra að hann sé frá en með svona heilahristing þá verður maður að fara eftir einkennum. Hann verður fyrst að vera einkennalaus áður en hann byrjar að hreyfa sig,“ sagði Örnólfur við Vísi fyrr í vikunni.

„Ef hann verður einkennalaus þá má hann hreyfa sig og þá sjáum við til hvernig hann verður. Ef hann verður fínn við áreynslu þá má hann spila en ef hann er með einkenni þá má hann ekki spila.“


Tengdar fréttir

Líkamsárásin á Aron mögulega örlagavaldur

Aron Pálmarsson spilar ekki með íslenska landsliðinu gegn Egyptalandi á HM í Katar í dag. Þetta staðfesti Örnólfur Valdimarsson, læknir íslenska liðsins, í gærmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×