Erlent

Eitt prósent á helminginn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Í skýrslunni frá Oxfam kemur í ljós að 80 prósent manna á jörðinni eiga ekki nema 5,5 prósent af heildarauð jarðarbúa.
Í skýrslunni frá Oxfam kemur í ljós að 80 prósent manna á jörðinni eiga ekki nema 5,5 prósent af heildarauð jarðarbúa. nordicphotos/AFP
Innan tveggja ára má búast við því að ríkasta prósent jarðarbúa muni eiga meira en allir aðrir jarðarbúar samtals. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Oxfam, sem birt er rétt fyrir ársfund Alþjóðlega efnahagsþingsins í Davos í Sviss.

Nú er svo komið að eitt prósent jarðarbúa, um 70 milljónir manna, eiga 48 prósent af öllum auði þeirra sjö milljarða manna sem alls búa hér á jörðu. Þetta samsvarar nokkurn veginn því að íbúar Austur-Kongó ættu samtals nærri helminginn af öllum auði jarðarbúa.

„Viljum við virkilega búa í heimi þar sem eitt prósent okkar á meira við hin öll samanlagt?“ segir Winnie Byanyima, framkvæmdastjóri Oxfam International, í tilkynningu. „Undanfarna tólf mánuði höfum við heyrt leiðtoga heimsins, allt frá Barack Obama til Christine Lagarde, tala meira um að taka þurfi á hinni gríðarlegu misskiptingu, en við erum enn að bíða eftir því að þeir taki til hendinni.“

Winnie Byanyima Framkvæmdastjóri Oxfam International á Davos-samkomunni í fyrra. Hún ætlar að mæta aftur í ár.fréttablaðið/AP
Í skýrslunni kemur fram að árið 2009 átti eitt prósent jarðarbúa um það bil 44 prósent af heildarauðnum, en nú er þetta hlutfall sem sagt komið upp í 48 prósent. Oxfam segir í skýrslunni að með sama áframhaldi verði hlutfallið komið yfir 50 prósent árið 2016.

Þar kemur einnig fram að 20 prósent jarðarbúa eigi 94,5 prósent allra auðæfanna, þannig að 80 prósent eiga ekki nema 5,5 prósent samtals. Að meðaltali eiga þessi 80 prósent jarðarbúa um það bil hálfa milljón króna, hver einstaklingur. Þetta er 700 sinnum minna en meðaltalseignir hvers einstaklings úr ríkasta prósentinu.

Byanyima ætlar að mæta til ráðstefnunnar í Davos í þeim tilgangi að hvetja alla þá leiðtoga viðskiptalífs og stjórnmála, sem þar koma saman, til þess að grípa til aðgerða til að snúa við þessari þróun vaxandi ójafnaðar.

Oxfam vakti athygli á Davos-ráðstefnunni í fyrra með því að skýra frá því að 85 ríkustu einstaklingar heims ættu samtals jafn miklar eignir og fátækari helmingur allra jarðarbúa samanlagt. Þessi tala er nú komin niður í 80 einstaklinga, en árið 2010 var talan 388.

Milljónamæringarnir

Í skýrslu um auðlegð jarðarbúa, sem rannsóknarstofnun svissneska bankans Credit Suisse sendi frá sér nýverið, kemur fram að flestir milljónamæringar heims búa í Bandaríkjunum eða Evrópuríkjum. Miðað er við milljón Bandaríkjadali.

Afríka 144.000

Asía/Kyrrahafsríki 5.637.000

Kína 1.181.000

Evrópa 11.780.000

Indland 182.000

Rómanska Ameríka 605.000

Norður-Ameríka 15.308.000

Samtals: 34.837.000




Fleiri fréttir

Sjá meira


×