Fótbolti

Eitt mark nægði Þjóðverjum en hjálpaði ekki íslenska liðinu | Sjáðu sigurmarkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Gomez fagnar marki sínu.
Mario Gomez fagnar marki sínu. Vísir/EPA
Michael McGovern, markvörður norður-írska liðsins, hélt sínu liði á floti í dag í 1-0 tapi á móti heimsmeisturum Þjóðverja í lokaleik liðanna í C-riðli Evrópumótsins í fótbolta í Frakklandi.

Mario Gomez fékk tækifærið í byrjunarliðinu hjá Þjóðverjum og skoraði sigurmarkið eftir hálftíma leik. McGovern varði síðan allt annað sem kom á markið auk þess að boltinn skall einnig í marksúlunum á bak við hann.

Markið dugði Þjóðverjum til að vinna riðilinn því Póllandi vann "bara" 1-0 sigur á Úkraínu á sama tíma. Bæði liðin enda með sjö stig en þýska liðið er með einu marki betra í markatölu.

Hefðu Þjóðverjar náð að nýta eitthvað af öllum dauðafærum sínum og unnið með tveggja marka mun þá hefði það verið öruggt að jafntefli á móti Austurríki myndi duga íslenska liðinu til að komast í sextán liða úrslitin.

Það fór hinsvegar ekki þannig en nái íslenska liðið bæði að skora og ná í stig á morgun þá verða strákarnir alltaf fyrir ofan Norður-Írland og Albaníu og þar með væri liðið með öruggt sæti í sextán liða úrslitunum.

Þjóðverjar voru í stórsókn frá upphafsflauti og yfirburðirnir skiluðu liðinu fullt af færum. Mesut Özil, Thomas Müller og Mario Götze voru allir nálægt því að skora.

Michael McGovern, markvörður norður-írska liðsins, varði þrisvar sinnum frábærlega frá þýsku leikmönnunum á fyrstu tuttugu mínútunum.

Thomas Müller skoraði ekki í tveimur fyrstu færunum og hann hefði getað verið komið með þrennu sjálfur í leiknum þegar hann lagði upp mark fyrir Mario Gomez eftir hálftíma leik.

Thomas Müller átti meðal annars tvö skot í tréverkið og þýska liðið var með algjöra yfirburði í fyrri hálfleiknum, var 75  prósent með boltann og reyndi 14 skot í hálfleiknum.

Svipaða sögu var að segja af seinni hálfleiknum, Michael McGovern var áfram vakandi í markinu og norður-írska liðið barðist allt til enda.

Þjóðverjarnir náðu ekki að koma boltanum aftur í markið og það að vera ekki með neikvæða markatölu gæti vissulega hjálpað norður-írska liðinu í baráttunni um að vera eitt af fjórum bestu liðunum sem enda í þriðja sæti í sínum riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×