Erlent

Eitraðir málmar finnast í rafrettum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Rannsakendur gerðu prófanir á 56 rafrettum sem fengnar voru frá reglulegum notendum.
Rannsakendur gerðu prófanir á 56 rafrettum sem fengnar voru frá reglulegum notendum. Vísir/getty
Nýleg rannsókn á rafrettum sýnir að eitraðir málmar leynist í rafrettuvökva í tönkum þeirra. Þá sýnir hún einnig að í gufunni sem notandinn andar frá sér er einnig að finna slíka málma.

Rannsóknin, sem framkvæmd var af vísindamönnum John Hopkins háskólans í Baltimore í Bandaríkjunum, var birt í vísindaritinu Environmental Health Perspectives.

Í rafrettum er vökvinn hitaður með brennurum, eða keflum, sem eru gerðir úr málmum. Vísindamennirnir tóku sýni úr þremur hlutum rafretta; vökvanum sjálfum, vökvanum innan úr tankinum á rafrettunni og gufunni sem kemur úr henni. Rannsókn þeirra snerist að því hvort brennarinn innan í rafrettunni, sem notaður er til að hita vökvann, myndi búa til eitraðan málm.

Tenging á milli eitraðra málma og sjúkdóma

Prófanir voru gerðar á 56 rafrettum sem fengnar voru frá reglulegum notendum og í yfir helmingi þeirra fannst króm, nikkel, mangan og blý.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að eitruðu málmarnir smitist frá brennurum rafrettanna og þá er einnig að finna í gufunni sem notendur rafrettanna anda að sér.

„Það er mikilvægt að matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA), rafrettu fyrirtækin og notendurnir sjálfir viti að brennararnir, eins og þeir eru gerðir í dag, virðast vera að smita frá sér eitruðum málmum - sem fara svo í gufuna sem notendur anda að sér,“ sagði Ana María Rule, einn aðalhöfunda rannsóknarinnar í tilkynningu frá John Hopkins háskólanum

Samkvæmt rannsókninni hefur verið sýnt fram á tengingu á milli króms og nikkels og öndunarfærasjúkdóma og lungnakrabbameins. Allir þessir málmar eru eitraðir þegar þeim er andað að sér. Þá getur blý valdið hjartasjúkdómum samkvæmt rannsókninni.

Samkvæmt rannsókninni fannst einnig arsenik í yfir tíu prósentum rafrettanna sem prófaðar voru, bæði í vökvanum sjálfum og í gufunni sem andað er að sér í gegnum rettuna.

Rannsóknina í heild sinni má skoða hér.


Tengdar fréttir

Rafrettur gætu gert unglinga líklegri til að reykja

Bandarískir lýðheilsusérfræðingar telja rafsígarettur mun hættuminni en hefðbundnar sígarettur. Þeir ganga þó ekki svo langt að lýsa þær hættulausar í viðamikilli skýrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×