Innlent

Eistnaflug og lögreglan eru gríðarlegir vinir

Vísir/Arnþór
Þetta segir í tilkynningu frá aðstandendum Eistnaflugs vegna fréttar sem birtist hér á Vísi í gær. Þar var rætt við Júlíu Birgisdóttur, gjaldkera Snarrótarinnar um áætlanir samtakanna að kynna ungmennum landsins rétt sinn. Meðlimir samtakanna munu dreifa spjöldum og plakötum á hátíðum í sumar og meðal annars Eistnaflugi.

Sagðist hún halda að aðstandendur Eistnaflugs væru ekki sérstaklega sáttir við framgöngu lögreglu á hátíðinni.

Tilkynninguna má lesa hér að neðan.

Nú neyðumst við til að hreinsa loftið og taka af allan vafa. Í meðfylgjandi grein leggur Júlía Birgisdóttir, gjaldkeri samtaka er nefna sig Snarrótin, okkur orð í munn og kunnum við henni engar þakkir fyrir. Að ýja að því á nokkurn hátt að við værum óánægð með aðkomu lögreglunnar að Eistnaflugi hefði verið ókurteisi. Að segja það svona hreint út með þessum hætti er hinsvegar rógburður, niðurrifsstarfsemi og gersamlega ólíðandi.

Við þekkjum starfsemi Snarrótarinnar ekki inn að kjarna, en vitanlega tökum við öllum fagnandi sem standa á bakvið uppbyggilega umræðu af heilindum. Snarrótin er velkomin hér með sinn boðskap og uppfræðslu, sem á pappírunum virðist í það minnsta af hinu góða. Þetta þykja okkur þó einstaklega barnalegar leiðir, og hræðsluáróður sem þessi er ekki til þess að auka öryggi eða samkennd. Við ætlum að fara þá leið að trúa því að þessi ummæli hafi fallið í hugsunarleysi, að þetta séu ekki dagleg vinnubrögð samtakanna, og ætlum því ekki að viðhafast meira í málinu. Snarrótin fær sem sagt að stunda sitt starf hér áfram óáreitt að því gefnu að ekki komi frekara kjaftæði upp úr kafinu.

Eistnaflug er nú haldið í 10. skipti og á öllum þessum árum hefur aldrei komið upp alvarlegt sakamál, líkamsárásir, kynferðisafbrot eða nokkuð slíkt. Við höfum unnið náið með lögreglunni í öll þessi ár til þess að öllum líði hér sem best og þetta eðalfólk hefur unnið starf sitt af gríðarlegum heilindum og fórnfýsi. Aldrei hafa komið upp mál hvar við höfum verið annað en 100% sammála lögreglunni og hennar aðgerðum, við höfum verið með í ráðum í hvívetna og samvinnan gríðartraust. Ef þetta væri ekki raunin væri Eistnaflug ekki eins og það er í dag og grundvöllur fyrir áframhaldi væri enginn.

Í stuttu máli: Eistnaflug og lögreglan eru gríðarlegir vinir. Allt fjas um annað er bull.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×