Erlent

Eistar vilja varanlega herstöð NATO til sín

Atli Ísleifsson skrifar
Toomas Hendrik Ilves Eistlandsforseti hefur miklar áhyggjur af þróun mála í austurhluta álfunnar.
Toomas Hendrik Ilves Eistlandsforseti hefur miklar áhyggjur af þróun mála í austurhluta álfunnar. Vísir/AFP
Forseti Eistlands vill að NATO komi sér upp varanlegri herstöð í Eistlandi til að bregðast við þeirri ógn sem stafar af Rússlandi. Toomas Hendrik Ilves lét orðin í samtali við Ekot fyrr í kvöld.

Ilves hyggst leggja fram kröfuna þegar hann fundar með Barack Obama Bandaríkjaforseta í eistnesku höfuðborginni Tallinn á morgun.

„Við getum ekki verið með með tveggja laga NATO,“ segir Ilves og vísar þar til samkomulags frá 1997 þar sem aðildarríki NATO hétu því að koma ekki kjarnavopnum fyrir í Eistlandi og öðrum þeim ríkjum sem þá gerðust aðilar að NATO. Samkomulagið hefur í raun falið í sér stopp við að koma upp varanlegum herstöðvum í nýrri aðildarríkjum.

Forsetinn segir þó samkomulagið um varanlegar herstöðvar einungis eiga við um það öryggisástand sem menn gátu ímyndað sér fyrir sautján árum síðan. „Enginn gat ímyndað sér innrás, innlimun eða nokkuð af því sem við verðum vitni af í dag. Ég lít því á slíkt rök sem bæði fræðilega og lagalega kjánaleg.“

Andstaða við hugmyndir um varanlegri herstöð NATO í Eystrasaltríkjunum hefur komið upp síðustu vikur. Síðast fyrir tveimur vikum hafnaði Angela Merkel Þýskalandskanslari öllu slíku og sagði að slíkt myndi fela í sér brot á samkomulagið við Rússa.

Málið verður vafalaust til umræðu á leiðtogafundi aðildarríkja NATO sem fram fer í velsku borginni Cardiff síðar í vikunni.


Tengdar fréttir

Úkraína vill inn í NATO

Framkvæmdastjóri NATO sakar Rússa um hrein og klár brot gegn fullveldi Úkraínu og að stunda hernaðaraðgerðir til stuðnings aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu.

Mótfallinn auknum hernaði í Úkraínu

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur vesturveldin til að leggja áherslu á pólitískar viðræður deiluaðila í austur-Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×