Innlent

Eiríkur Ingi lagði TM og fær bætur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiríkur Ingi með viðurkenningu þegar hann var kjörinn maður ársins hjá Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni.
Eiríkur Ingi með viðurkenningu þegar hann var kjörinn maður ársins hjá Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni. Vísir
Eiríkur Ingi Jóhannsson sjómaður sem öðlaðist landsfrægð þegar hann lifði af sjóslys undan ströndum Noregs í janúar 2012 hafði betur í skaðabótamáli við tryggingafélagið TM í síðustu viku. Málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Var TM dæmt til þess að greiða honum tæplega 13 milljónir króna en fyrir dómi var deilt um hvað ætti að miða við þegar kæmi að bótum vegna 35% örorku sem Eiríkur Ingi hlaut í slysinu.

Eiríkur réð sig sem vélstjóra á fiskiskipið Hallgrím SI-177 í janúar 2012 en skipið hafði verið selt til Noregs og átti að sigla þangað. Þegar skipið var statt undan ströndum Noregs þann 25. janúar gerði mikið óveður, gríðarmikið brot kom á skipið, það lagðist á hliðina og sjór fór að streyma inn í það.

Eiríkur Ingi og aðrir skipverjar reyndu í kjölfarið að koma sér í björgunargalla og koma út björgunarbáti. Það gekk ekki sem skyldi og létust allir þrír skipsfélagar stefnanda en skipið sökk á innan við fimm mínútum. Eiríki tókst hins vegar að koma sér í flotgalla og var í sjónum í um fjórar klukkustundir áður en norska strandgæslan kom auga á hann úr þyrlu, bjargaði honum og flutti á sjúkrahús.

Eiríkur Ingi sagði sögu sína bæði í Kastljósi og ítarlegu viðtali í Fréttablaðinu. Þar var meðal annars haft eftir honum að hann vildi ekki að sín yrði minnst sem mannsins sem fór í sjóinn.

Ekki rétt að miða við starfið á hvalaskoðunarbátinn

Eiríkur hafði þegar fengið greiddar bætur vegna slyssins en eftir stóð ákvörðun um hvað ætti að miða við vegna örorkunnar. Meginreglan er sú að miðað sé við meðallaun árin þrjú fyrir slys. Málið er hins vegar flókið í tilfelli Eiríks þar sem hann var í námi á þessum tíma og sömuleiðis án vinnu um tíma. Hann var hins vegar kominn með skipstjóraréttindi þegar hann lenti í slysinu og átti eftir að ljúka tveimur áföngum til að verða vélfræðingur með full og ótakmörkuð vélstjórnarréttindi á öllum skipum.

Í niðurstöðu dómsins segir að Eiríkur hafi í gegnum tíðina ötullega aflað sér faglegrar hæfni og starfsréttinda. Hann hafi unnið mikið með námi árin 2010 og 2011 og því mætti ganga út frá því að hann hefði lokið áföngunum tveimur meðfram starfi á sjó. Hann hafi því lokið nægu námi til að leggja mæti hvort sem er meðallaun vélstjóra eða skipstjóra til grundvallar árslaunum hans.

Þótt Eiríkur hafi mestmegnis starfað á hvalaskoðunarbátum árin á undan með náminu var hann að leita að vinnu á skipi og hafði verið lofað skipsplássi á uppsjávarveiðiskipi. Hann fór hins vegar einn túr á öðru skipi, ferðina til Noregs. Sá túr batt enda á áform hans að vinna til sjós.

Dómurinn telur að með því skipsplássi sem Eiríkur hafði fengið á fiskveiðiskipi, og þeim verkefnum sem hann tók að sér í millitíðinni og þeirri ráðagerð hans að kynna sér hvort betur launuð störf byðust í Noregi, hafi hugur hans ekki staðið til þess að starfa varanlega á hvalaskoðunarbátum. Þvert á móti sýni þetta að Eiríkur hafi markvisst unnið að því að fá betur launað starf en á hvalaskoðunarbáti.

Því féllst dómurinn ekki á rök TM að þar eð Eiríkur hafi ekki verið kominn í vellaunað fast starf á skipi eigi ekki að miða við meðallaun yfirvélstjóra eða skipstjóra.

Hefði fengið skipstjórastarf

Þegar litið sé til þess náms og réttinda sem Eiríkur hafði aflað sér og var í þann mund að afla sér telur dómarinn mjög miklar líkur á að Eiríkur hefði boðist starf sem skipstjóri eða yfirvélstjóri í mjög náinni framtíð.

Var fallist á rök Eiríks og lögmanns hans og TM dæmd til að greiða Eiríki 12,7 milljónir króna með vöxtum og dráttarvöxtum. Þá þurfti TM að greiða Eiríki málskostnað upp á 850 þúsund krónur en lögfræðikostnaður Eiríks greiðist úr ríkissjóði.


Tengdar fréttir

Eiríkur Ingi kominn í mark

Eiríkur Ingi Jóhannsson, sjómaðurinn sem komst af eftir hryllilegan sjóskaða í janúar árið 2012 og Bylgjan valdi sem mann þess árs, er kominn í mark í WOW Cyclothon en hann hjólaði hringinn einn síns liðs.

„Ég vil ekki vera bara sá sem datt í sjóinn“

Eiríkur Ingi Jóhannsson afrekaði í liðinni viku að hjóla hringinn einn á rúmum þremur sólarhringum. Hann fann ekki fyrir stressi í ferðinni enda vanur álagi. Lenti í háska og heljarþrekraun þegar togarinn Hallgrímur fórst við strendur Noregs árið 2012. Þa

Ei­ríkur Ingi deilir við TM um ör­orku­bætur

Eiríkur Ingi Jóhannsson, sjómaður sem öðlaðist landsfrægð þegar hann komst lífs af frá sjóslysi undan ströndum Noregs í janúar fyrir fjórum árum, stendur í stappi við TM vegna bótauppgjörs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×