Erlent

Einræðisherrann þarf að víkja

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bashar Farahat kom til landsins í tilefni af hinu árlega bréfamaraþoni Amnesty International sem nú er að fara af stað. Hann sat í fangelsi ógnarstjórnar Bashars al Assad í Sýrlandi og sætti pyntingum.
Bashar Farahat kom til landsins í tilefni af hinu árlega bréfamaraþoni Amnesty International sem nú er að fara af stað. Hann sat í fangelsi ógnarstjórnar Bashars al Assad í Sýrlandi og sætti pyntingum. Fréttablaðið/Ernir

„Fólk var bara búið að fá nóg,“ segir Bashar Farahat, sýrlenskur flóttamaður sem tók þátt í uppreisninni gegn stjórn Bashars al Assad forseta árið 2011.

Arabíska vorið svonefnda var þá í hámarki. Sýrlendingar urðu gagnteknir af byltingaranda og heillaðir af fyrirmyndum frá Túnis, Egyptalandi og víðar. Farahat kom hingað til lands í vikunni á vegum Amnesty International í tilefni af hinu árlega bréfamaraþoni sem nú er að fara af stað. Með bréfaskrifunum er reynt að þrýsta á harðstjóra víða um heim til að láta samviskufanga lausa. Hreyfing sem enginn gat stöðvað „Það var svo margt sem spilaði þarna inn í,“ segir hann, spurður um ástæður þess að byltingin fór af stað.

Hreyfing sem enginn gat stöðvað

„Þetta var hreyfing sem enginn gat stöðvað. Fólk hafði búið við einræði árum saman. Spillingin var óendanleg og stjórnin taldi sig geta komist upp með hvað sem er. Við fórum að mótmæla og þetta hlóð hratt utan á sig.“ Hann segir mótmælin hafa verið friðsamleg en stjórnin hafi strax brugðist við af mikilli hörku, skotið á friðsama mótmælendur og handtekið fólk unnvörpum. 

Fyrsta árið var eins og draumur „Fyrir mig var fyrsta ár byltingarinnar eins og draumur, besta ár lífs míns. Fólk var í alvörunni að reyna að breyta hlutunum. En það fylgdi þessu mikil áhætta.“ Þegar á leið snerist þetta þó upp í martröð. Mótmælendurnir hafi smám saman furðað sig æ meir á viðbrögðum umheimsins. „Það komu engin viðbrögð. Nema nú er farið að varpa sprengjum á Íslamska ríkið. Frakkar, Bretar, Bandaríkjamenn og Rússar, allur heimurinn er að varpa sprengjum með þeim afleiðingum að almennir borgarar deyja en Íslamska ríkið stækkar. Það verður að finna einhverja lausn, en það er enginn að reyna.“ Eina lausnin, sem Farahat sér, er að Assad forseti fari frá völdum. Fyrst eftir það sé hægt að snúa sér að Íslamska ríkinu.

Handtekinn á sjúkrahúsinu

Farahat er menntaður læknir, með sérhæfingu í barnalækningum, og starfaði á sjúkrahúsi í Damaskus þegar hann var fyrst handtekinn í júlímánuði árið 2012. „Þeir komu á sjúkrahúsið til að handtaka mig,“ segir hann. Hann var í fangelsum í sex mánuði, ýmist í haldi öryggissveita stjórnarinnar eða í almennu fangelsi. Þremur mánuðum eftir að honum var sleppt var hann handtekinn aftur, og mátti þá dúsa fimm mánuði í fangelsi. „Þá var ég aftur látinn laus, en þá gat ég ekki verið lengur í landinu. Ég var kallaður í herinn, sýrlenska herinn sem þá var að drepa fólk.“ Fjölskylda hans var líka flúin og flestir vina hans, sem tóku þátt í mótmælunum með honum.

Allt var í rúst

„Í fyrra skiptið sem ég var látinn laus var öll fjölskyldan enn í landinu og vinirnir líka. En í seinna skiptið var bara einn vina minna eftir. Það var líka allt í rúst og engin leið að búa lengur í landinu.“ Hann flúði til Líbanon þar sem hann dvaldi í tæplega hálft annað ár, en fékk þá samþykki frá Bretlandi um að flytjast þangað sem flóttamaður.

„Ég fór til Bretlands í mars á þessu ári.“ Hann hefur ekki getað starfað þar sem læknir, þrátt fyrir menntun sína. Til þess að fá læknisleyfi þar þarf hann að taka próf í Bretlandi. Ekki hefur tekist að fá sýrlensku prófskírteinin frá Sýrlandi. „Ég er stundum að hugsa hvort ég eigi bara að gleyma þessu. En ég er að minnsta kosti að leita mér að vinnu í Bretlandi núna.“

Menn játa á sig hvað sem er

Tíminn í fangelsinu var erfiður. Farahat mátti sæta pyntingum og ljótri meðferð.

„Þeir hafa leyfi til að gera hvað sem er og komast upp með það. Strax eftir handtökuna byrja þeir að gang í skrokk á manni. Svo er maður barinn hvenær sem er, hvert sem maður fer og hvað sem maður gerir,“ segir Farahat.

„Aðalpyntingarnar eru þó í yfirheyrslunum. Þar beita þeir barsmíðum og nota þá hendur, kylfur, belti og hvað sem er. Þeir hengja okkur upp og nota rafpyntingar. Sumir deyja. Allt er þetta gert til að fá játningar út úr föngunum, en þegar fólk er pyntað játar það á sig hvað sem er. Það heldur enginn þetta út.“

Það eitt að vera í fangelsinu er svo pynting út af fyrir sig, því aðstæðurnar eru skelfilegar: „Ég var látinn hírast í fjóra mánuði með hundrað föngum í klefa sem var ekki nema fimm sinnum sex metrar. Allt er bannað nema að borða og sofa, ef maður gat þá sofið, og þola refsingar og pyntingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×