Innlent

Einn í haldi lögreglu vegna brunans á Grettisgötu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á mánudagskvöld.
Frá vettvangi á mánudagskvöld. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Annar mannanna sem lögreglan leitaði að í tengslum við brunann á Grettisgötu 87 á mánudagskvöld er í haldi lögreglu. Þá er vitað hvar hinn er niðurkominn og mun lögregla ræða við hann síðar í dag.

Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er verið að kanna hvort að þessir tveir menn séu þeir sem sáust yfirgefa húsnæðið skömmu eftir að eldsins varð vart.

Ekki liggur fyrir hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim en þeir hafa báðir komið við sögu lögreglu áður. Fyrst var greint frá því á vef RÚV að lögregla hefði mann í haldi vegna málsins.

Aðspurður segir Jóhann Karl að rannsókn inni í húsinu sé lokið og að hún verði afhent tryggingafélögunum klukkan eitt. Eldsupptök eru enn í skoðun hjá tæknideild lögreglunnar og segist Jóhann Karl ekkert geta sagt til um hvort grunur leiki á íkveikju í húsinu.

En er talið í að eldurinn hafi kviknað í kjallara hússins?

„Ég verst allra fregna varðandi það,“ segir Jóhann Karl.

Í tilkynningu frá lögreglu í gær var sagt að leitað væri að fjórum mönnum, annars vegar mönnunum sem sáust yfirgefa húsnæðið og hins vegar mönnum sem sáust ganga upp Rauðarárstíginn. Jóhann Karl segir að lögregla telji nú að um sömu menn hafi verið að ræða í báðum tilfellum.


Tengdar fréttir

Merkileg menningarsaga Grettisgötu 87

Í húsinu var meðal annars að finna einu elstu líkamsrætkarstöð landsins og kjallara sem eitt sinn hýsti fyrsta æfingarhúsnæði Sigur rósar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×