Innlent

Einn himinlifandi með frábært geitungasumar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ólafur Sigurðsson var í gær í Vesturbænum í Reykjavík að eyða geitungabúi sem var þar upp uppi í tré.
Ólafur Sigurðsson var í gær í Vesturbænum í Reykjavík að eyða geitungabúi sem var þar upp uppi í tré. vísir/hanna
„Það er mikið geitunga­sumar, þetta er æðislegt,“ segir Ólafur Sigurðsson geitungabani, einnig kallaður Köngulóarmaðurinn.

„Það er fullt af holugeitungi og trjágeitungabúin eru stærri en ég hef nokkurn tíma séð. Þetta er alveg dúndurvertíð, það er hreinlega búið að vera alveg brjálað,“ segir Ólafur sem hefur fengist við að uppræta geitungabú í fimmtán ár.

„Það var ekkert sérstakt í fyrra og enn þá verra þar áður en núna er mjög mikið geitungasumar, á við það sem best hefur verið,“ segir Ólafur. Helst sé að jafna við sumrin 2003 og 2004. „Þá var svakalega mikið.“

Að sögn Ólafs stinga geitungar ekki nema þeim sé ógnað. „Þeir eru úti um allt og fólk er að slá til þeirra og æsa þá upp og þá eiga þeir það til að stinga,“ segir hann. Flugurnar séu mjög örar þegar hlýtt sé í veðri og þá sé frekar að búast við stungum.

Ólafur kveðst ekki vera í sérstökum hlífðargalla vegna þess hversu langan tíma taki að klæða sig í hann og úr. Stundum verða óhöpp játar hann enda sé hann að ráðast með eitri á bú geitunganna.

„Þó að maður sé kannski stunginn tvisvar, þrisvar á sumri þá er það ekkert alvarlegt. Það er gjaldið fyrir að losna við gallann.“

Geitungur.
Ólafur segir starfið spennandi og því fylgi útivera í náttúrunni.

„Ég hef verið kennari, ég hef verið til sjós á togurum, hef verið rannsóknarmaður hjá Raunvísindastofnun, verkefnastjóri hjá Iðntæknistofnun, yfirgæðamatsmaður hjá fiskvinnslu á Hjaltlandseyjum og ég get haldið áfram að telja en þetta er það allra skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Ólafur.

Þannig að viðskiptin blómstra þótt ekki séu allir eins ánægðir og Ólafur með það. „Ég veit það,“ svarar Köngulóarmaðurinn og hlær glaðhlakkalega.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×