Innlent

Einn farþegi enn á gjörgæslu eftir rútuslysið á Þingvallavegi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Einn sjúklingur liggur enn á gjörgæslu Landspítala eftir rútuslys á Þingvallavegi í gær. Sautján manns voru fluttir á Landspítalann í kjölfar slyssins, þar af voru tveir fluttir á gjörgæslu. Tíu voru útskrifaðir í gær og fimm lögðust inn á almenna deild.

Alls voru 42 farþegar í rútunni, flestir þeirra kínverskir ferðamenn, þegar hún valt upp úr klukkan tíu í gærmorgun við Skálafellsafleggjara á Þingvallavegi.

Þingvallaveg var lokað í um fimm tíma vegna slyssins og voru aðrir farþegar fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var rútan á sumardekkjum. Rútan var á vegum hópbílafyrirtækisins Skagaverks. en Gunnar Þór Gunnarsson, forsvarsmaður fyrirtækisins, sagði að rútan hafi verið á góðum dekkjum, þó ekki nagladekkjum.

Sjá einnig:Rútuslys á Þingvallavegi

Viðbragðsáætlun almannavarna var virkjuð vegna slyssins og mikill fjöldi sjúkrabíla, lögreglubíla, tækjabíla slökkviliðs og björgunarsveitafólk sent á vettvang.

Landspítalinn virkjaði gult viðbúnaðarstig vegna slyssins. „Þegar viðbúnaðarstig er virkjað þá þýðir það að spítalinn er leggur frá sér önnur störf eftir því sem þurfa þykir og einbeitir sér að þeim alvarlega atburði sem orðið hefur. Í þessu tilfelli var það þannig. Það voru mest fjörutíu manns hér að vinna á bráðadeildinni við að sinna þeim sem komu hingað,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við fréttastofu í gær.

Þá bað blóðbankinn vana blóðgjafa í O mínus og O plús að koma og gefa blóð í gær vegna slyssins, og náði að anna þörf spítalans fyrir blóðgjafir.

Frétt kvöldfrétta Stöðvar 2 um slysið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×