Innlent

Einn einfaldur er eina klukkustund úr líkamanum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þeir sem ætla sér að drekka áfengi sem nemur sex stórum bjórum mega búast við því að þurfa að bíða í allt að 18 klukkustundir eftir að mega setjast aftur undir stýri. Það þýðir að sá sem hættir drykkju um klukkan 06:00 gæti þurft að bíða með akstur til miðnættis.

Þetta kom fram í máli Sigrúnar A. Þorsteinsdóttur, sérfræðings í forvörnum hjá VÍS, sem fræddi hlustendur Bylgjunnar um hætturnar sem kunna að fylgja ótæpilegri áfengisdrykkju um helgina, stærstu ferðahelgi ársins.

Hún sagði í samtali við Reykjavík síðdegis að það væri mikilvægt væri leiða hugann að því, sérstaklega núna um Verslunarmannahelgina sem alræmd er fyrir áfengisdrykkju, að áfengi er lengi að brotna niður í líkamanum og að margir ökumenn gerðu sér ekki grein fyrir því að áhrifa þess kunni enn að gæta næstum sólarhring eftir að drykkju hefur verið hætt.

Sé ekið of snemma af stað kunni því að fylgja tugþúsund króna sektir sem og ökuleyfissviptingar.

Sigrún benti hlustendum á þumalputtareglu sem gott er að hafa í huga áður en haldið er út í umferðina á ný: Líkaminn er um eina klukkustund að losa sig við einfaldan drykk.  Sex stórir bjórar eru þannig að sögn Sigrúnar um 12 einfaldir drykkir og eru þannig tólf, jafnvel allt upp í 18, klukkustundir að hverfa úr líkamanum.

Sá sem hættir að drekka klukkan fjögur um nóttina má því ekki setjast aftur undir stýri fyrr en seinnipartinn - í fyrsta lagi. Að sama skapi verði að hafa í huga að „niðurtalningin” hefst ekki fyrr en að drykkju er lokið. Ekki þýði að byrja að telja klukkustundirnar frá því að fyrsti áfengisdropinn snertir varirnar.

Í spilaranum hér að ofan má heyra ráðleggingar Sigrúnar og þau viðurlög sem kunna að fylgja því ef vel er ekki að gáð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×