Enski boltinn

Einn eftirsóttasti leikmaður heims gæti hafnað United og Arsenal fyrir PSG

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tiemoue Bakayoko í leik með Monaco.
Tiemoue Bakayoko í leik með Monaco. vísir/gettyu
Tiemoue Bakayoko, 22 ára gamall miðjumaður Monaco í Frakklandi, er einn eftirsóttasti ungi leikmaður heims um þessar mundir en hann hefur spilað frábærlega fyrir Monaco sem er í toppbaráttunni í frönsku 1. deildinni og er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Manchester United og Arsenal hafa undanfarnar vikur og mánuði verið sögð gríðarlega áhugasöm um að fá Bakayoko til liðs við sig næsta sumar en hann er spenntari fyrir franska stórliðinu Paris Saint-Germain.

Ólíklegt þykir að Monaco haldi honum í sumar vegna áhuga stórliða en ef PSG kemur bankandi á dyrnar þykir ansi líklegt að hann slái til og flytji aftur til höfuðborgarinnar en þaðan er hann ættaður.

„Þegar Tiemoue var ungur vildi hann alltaf spila fyrir PSG. Það var draumur hans,“ segir Soualio Bakayoko, bróðir Tiemoue, sem spilar með Paris FC í frönsku 3. deildinni.

„Þegar ég sagði við hann í æsku að einn daginn ætti hann eftir að spila fyrir PSG sagði hann alltaf að ef það byðist myndi hann slá til. Hann var samt þolinmóður en ef hann getur farið til PSG mun hann fara þangað,“ segir Soualio Bakayoko í viðtali við RMC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×