Handbolti

Einn bikarúrslitaleikjanna í ár fer fram á Akureyri en ekki í Laugardalshöllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Auglýsing á heimasíðu KA
Bikarúrslitahelgi handboltans hefst annað kvöld með undanúrslitum Coca Cola bikars kvenna og líkur á sunnudaginn með bikarúrslitaleikjum yngri flokkanna. Allir bikarúrslitaleikir handboltans í ár fara fram í Laugardalshöllinni nema einn.

Handknattleikssambandið hefur undanfarin ár boðið upp á fyrirmyndar aðstæður í Laugardalshöllinni á bikarúrslitahelgunum þar sem yngri flokkarnir spila við nákvæmlega sömu aðstæður og meistaraflokkarnir.

Báðir bikarúrslitaleikir meistaraflokkanna fara fram á laugardeginum en á sunnudeginum eru sex bikarúrslitaleikir yngri flokka í Höllinni.

Sjöundi bikarúrslitaleikur krakkanna fer aftur á móti fram í Höllinni á Akureyri. Þetta er bikarúrslitaleikurinn í 4. flokki karla yngra árs.

KA-menn auglýsa leikinn á heimasíðu sinni en frítt verður inn á þennan sögulega leik og það má búast við því að Akureyringar verði duglegir að mæta á leikinn á sunnudaginn.

„Venjulegast fara allir bikarúrslitaleikir fram í Laugardalshöllinni sama daginn en vegna sérstakra aðstæðna, að KA og Þór séu að mætast, var ákveðið að leikurinn færi fram á Akureyri,“ segir í frétt á heimasíðu KA.

KA- og Þórs-strákarnir missa vissulega af því að spila úrslitaleik á dúknum í Laugardalshöllinni en fá þess í stað að gera það sem engu norðanliði hefur tekist sem að er að vinna bikarinn á heimavelli.

Akureyringar ætla að hafa umgjörðina sem glæsilegasta fyrir norðan og þar verður ekkert slakað á kröfunum þótt að úrslitaleikurinn fari ekki fram í Laugardalshöllinni eins og í hinum sex flokkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×