Handbolti

Einn besti handboltamaður heims hættir 27 ára til að ferðast um heiminn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kim Ekdahl du Rietz.
Kim Ekdahl du Rietz. Vísir/Getty
Þó svo að Kim Ekdahl du Rietz sé einungis 27 ára hefur hann þegar ákveðið að hætta að spila handbolta í vor.

Ekdahl du Rietz er samningsbundinn þýsku meisturunum í Rhein-Neckar Löwen til loka tímabilsins 2018. Hann hefur hins vegar komist að samkomulagi um starfslok í lok tímabils.

„Kim greindi okkur frá framtíðaráætlunum sínum,“ segir í frétt á heimasíðu Löwen í dag.

„Við berum virðingu fyrir hans óskum, að hann vilji hefja nýtt líf í sumar án aðkomu afreksíþrótta. Við hefðum gjarnan viljað halda Kim til 2018 og hörmum ákvörðun hans mjög,“ segir enn fremur í fréttinni.

Til að fylla í skarð hans hefur Löwen ákveðið að semja við serbneska landsliðsmanniunn Momir Rnic sem mun koma í sumar frá Melsungen.

Ekdahl Du Rietz hefur glímt við meiðsli í gegnum tíðina en virðist þó ekki hætta vegna meiðsla, enda ekki misst af leik í Þýskalandi í þrjú og hálft ár eftir því sem fram kemur í Aftonbladet.

Kemur fram í sömu frétt að hann hafi ávallt farið sína leið í lífinu og hafi í hyggju að ferðast um heiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×