Erlent

Einkunnir hækkuðu þegar lexíunum var sleppt

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nemendum leið betur í skólanum þegar þeir sluppu við lexíurnar.
Nemendum leið betur í skólanum þegar þeir sluppu við lexíurnar. NordicPhotos/Getty
Þegar nemendurnir í grunnskólanum Norrevångsskolan í Karlshamn í Svíþjóð sluppu við heimanám hækkuðu einkunnir þeirra umtalsvert, að því er sænskir fjölmiðlar greina frá.

Skólastjórinn gerði í fyrra tilraun meðal nemenda í 7. til 9. bekk sem gekk út á að sleppa alveg lexíum. Nemendum var boðinn morgunverður í skólanum og þeir höfðu möguleika á að dvelja í skólanum eftir að kennslu lauk til þess að fá sérstaka aðstoð við námið eða stunda íþróttir.

Haft er eftir skólastjóranum að margt hafi ekki verið sem skyldi, fjarvistir hafi verið miklar, árangur lélegur og færri kosið að læra tungumál. Menn hafi komist að því að ekki væri hægt að halda áfram að feta ranga braut. Breytingar hafi verið nauðsynlegar. Skólastjórinn, Patrik Johnsson, segir að nemendur læri tíu sinnum meira á frjálsum námstíma heldur en þegar þeir fá lexíur heim. Hann segir einkunnir aldrei hafa verið hærri.

Það sem gleður skólastjórann mest er að nemendur hafa á orði að þeim líði betur í skólanum og að þeir finni fyrir meira öryggi. Auk þess sé minna skemmt í skólanum.

Það er mat skólastjórans að þegar heimanámi sé sleppt aukist kröfurnar á kennara um árangursríkari kennslu. Þess vegna hafi árangurinn af breytingunum orðið svona góður.

Hann bendir meðal annars á að rannsóknir hafi leitt í ljós að heimanám sé helsta orsök árekstra á heimilinu auk þess sem mikilvægt sé að skilja á milli vinnu og frítíma. Nemendur hafi orðið miklu einbeittari í skólanum.

Kennslutíma kennara og fyrirkomulagi kennslu var breytt en eini viðbótarkostnaður skólans var vegna morgunmatarins, að sögn skólastjórans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×