Handbolti

Einkunnagjöf Ekstra Bladet á EM: Guðmundur á pari við Hansen, Landin og Toft

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Vísir/Getty
Annað stórmótið í röð mistókst Guðmundi Guðmundssyni að koma danska landsliðinu í undanúrslit á stórmóti en Danir spila um fimmta sætið á EM í Póllandi.

Danir enduðu í fimmta sæti á HM í Katar fyrir ári síðan og það var mikil pressa á íslenska þjálfaranum að koma liðinu í undanúrslitin í Póllandi. Miðað við hvað staðan var góð fyrir síðustu tvo leikina er niðurstaðan gríðarleg vonbrigði.

Guðmundur hefur að sjálfsögðu fengið á sig talsverða gagnrýni í dönskum fjölmiðlum en það vekur athygli að samkvæmt samantekt á einkunnagjöf Ekstra Bladet á mótinu stóð enginn leikmaður danska liðsins sig betur en íslenski þjálfarinn á mótinu.

Þetta var sjötti leikur danska liðsins á mótinu og fyrsta tapið en liðið missti þó unninn leik á móti Svíum í jafntefli kvöldið áður. Danir unnu fyrstu fjóra leiki sína.

Blaðamenn gefa einkunnir í leikjum liðsins og eru þær frá 0 til 6. Guðmundur er með hæstu meðaleinkunnina ásamt þremur leikmönnum en þeir eru allir með 4,0 að meðaltali. Leikmennirnir eru stórskyttan Mikkael Hansen, markvörðurinn Niklas Landin og línumaðurinn Henrik Toft Hansen.

Lægstu einkunnir Guðmundar voru þristarnir sem hann fékk fyrir tvo síðustu leiki danska liðsins. Hann fékk aftur á móti fimm af sex mögulegum fyrir sigurleiki liðsins á móti Ungverjum og Spánverjum.

Niklas Landin er sá eini sem fékk sexu en það fékk hann fyrir frammistöðu sína á móti Spáni. Landin fékk aftur á móti ás á móti Svartfjallalandi. Hægri skyttan Mads Christiansen fékk einn í einkunn fyrir tvo síðustu leikina og var lægstur af byrjunarliðsmönnum liðsins.

Mikkael Hansen var mjög jafn og oftast með fjóra fyrir utan þristinn sem hann fékk í fyrsta leik á móti Rússum og fimmuna sem hann fékk fyrir Ungverjaleikinn.

Hinn íslensk ætlaði Hans Lindberg var með aðeins 2,8 í meðaleinkunn og fékk aldrei hærra en 3 í einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×