Viðskipti innlent

Einir í óbyggðum Grænlands

Starri Freyr Jónsson skrifar
Inntakslón virkjunarinnar í Paakitsoq-firði. Grænlandsjökull í baksýn.
Inntakslón virkjunarinnar í Paakitsoq-firði. Grænlandsjökull í baksýn.
Undanfarin ár hafa starfsmenn íslenskra verktakafyrirtækja starfað víða um heim við afar krefjandi og erfiðar aðstæður. Einn þeirra er Pétur Hemmingsen, tæknimaður hjá Ístaki, sem hefur dvalið á Grænlandi um nokkurn tíma. Ístak er að leggja lokahönd á byggingu vatnsaflsvirkjunar í Paakitsoq-firði, um 350 km norðan heimskautsbaugs og 60 km norðan við bæinn Ilulissat á vesturströnd Grænlands.

Pétur segir að um 150 manns hafi starfað að verkefninu þegar það stóð sem hæst en í dag séu 15-20 manns á staðnum enda séu framkvæmdir á lokastigi.

„Þetta var alveg ónumið land áður en framkvæmdir hófust hér og við munum skilja við svæðið eins og nánast enginn hafi nokkurn tíma verið hér. Virkjunin mun sjá Ilulissat fyrir rafmagni og hita og kemur í stað olíufrekra dísilrafstöðva. Það voru sprengdir um 6 km af jarðgöngum auk þess sem lagður var um 10 km langur vegur á vinnusvæðinu sem er einn sá lengsti á Grænlandi. Ein af sérstöðum verkefnisins er að virkjunin er í sífrera sem kallaði á sérstakar lausnir í hönnun til að koma í veg fyrir að vatnið í göngunum frjósi og verði að stóru klakastykki.“

Pétur Hemmingsen, tæknimaður hjá Ístaki á Grænlandi.
Pétur segir vinnuaðstæður á Grænlandi talsvert ólíkar íslenskum.

„Vinnustaðurinn er mjög afskekktur og einangraður auk þess sem samgöngur eru erfiðar. Hér er ekkert GSM-samband og hingað liggur enginn vegur úr bænum svo siglingar eru stór og mikilvægur þáttur í þessu verki enda þarf að sigla með öll aðföng. Paakitsoq-fjörður er frosinn 7-8 mánuði á ári og þá er ekkert hægt að sigla. Á meðan er notast við þyrlur til að flytja mannskap og vistir. Þá skipti máli að skipuleggja vel öll innkaup og þörf fyrir aðföng. Yfir háveturinn hefur vinnustaðnum svo verið lokað.“

Að sögn Péturs er veðurfar á Grænlandi talsvert stöðugra en á Íslandi. „Á sumrin skín sólin stöðugt og ekki oft sem ský sjást á himni. Hitinn á sumrin er á milli 5 og 20 stig en yfir veturinn er um 20-30 stiga frost. Úrkoma hér er einnig mjög lítil miðað við Ísland. Það sem kemur mörgum Íslendingum á óvart er að hér er mikið af moskítóflugum sem eru mjög árásargjarnar og bíta mann grimmt.“

Hann nefnir einnig að jarðfræðin sé öðruvísi en á Íslandi. Allt berg sé mun eldra og því meira um klappir. 

„Umhverfið hér á vinnustaðnum er einnig mjög sérstakt. Við erum við rætur Grænlandsjökuls en meira að segja sjálfum Grænlendingum þykir merkilegt að komast svona í návígi við jökulinn.“

Dæmigerður vinnudagur hjá Pétri og félögum er frá sjö á morgnana til sjö á kvöldin alla daga vikunnar nema sunnudaga. Flestir starfsmannanna vinna fjórar vikur í einu og taka svo tveggja vikna frí á Íslandi. „Á sunnudögum fara margir í gönguferðir, út að hlaupa, spila, slappa af og horfa á bíómyndir. Sumir hafa stundað reglulegt sjósund hér, eins ótrúlega og það hljómar. Svo er auðvitað rík hefð fyrir því að fá sér bjór á laugardagskvöldum eftir langa og stranga vinnuviku.“

Ásgeir Jónsson, starfsmaður Ístaks til margra ára, á Hitachi-gröfunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×