Skoðun

Einföld mótvægisaðgerð sem virkar

Sigurjón Örn Þórsson skrifar
Flestir hafa sterkar skoðanir á hinum svokallaða matarskatti og þeirri hækkun sem blasir við heimilum landsins með tilkomu hans. Hækkun matvælaverðs er vissulega eitthvað sem öll heimili í landinu finna fyrir. Stjórnvöld hafa hins vegar ítrekað lýst því yfir að samhliða þeirri hækkun verði gripið til mótvægisaðgerða sem eigi að leiða til þess að heimilin í landinu finni lítið sem ekkert fyrir þeim aðgerðum.

Ýmsar skattaútfærslur eru helst nefndar í þessu sambandi og sitt sýnist hverjum um gagnsemi þeirra. Sumar eiga að gagnast einum þjóðfélagshópi meir en öðrum, meðan aðrar koma betur við tekjuhærri hópa en þá tekjulægri.

Ein hugmynd hefur þó ekki verið rædd, en það er einföld mótvægisaðgerð sem virkar. Hún felur í sér að virðisaukaskattur á fatnaði, skóm og fylgihlutum verði lækkaður niður í sama skattþrep og fyrirhugaður matarskattur, eða 12%.

Fæstir átta sig á að stærsti söluaðili á fatnaði, skóm og fylgihlutum á Íslandi, starfrækir ekki einu sinni verslun á Íslandi. Fjármálaráðgjafafyrirtækið Meniga segir sænska risann H&M eiga þann heiður og það segir meira en margt annað um stöðu mála hér á landi. Íslendingar vilja hins vegar versla heima í héraði, heima á Íslandi og þessi breyting á virðisaukaskatti getur auðveldað það til muna.

Ef virðisaukaskattur á fatnaði, skóm og fylgihlutum yrði lækkaður í 12%, yrði það afar stór aðgerð í þágu verslunar í landinu sem myndi óhjákvæmilega leiða til þess að fleiri keyptu sér föt hér á landi, sem þýddi að fleiri krónur yrðu eftir í íslenska hagkerfinu, fleiri störf yrðu til, skattgreiðslur til ríkisins yrðu hærri og svo mætti áfram telja. Síðast en ekki síst myndi þetta verða alvöru mótvægisaðgerð við hinn svonefnda matarskatt.

Gagnrýndur þessarar leiðar gætu bent á að kostnaður við hana gæti verið í fyrsta kasti rúmir tveir milljarðar króna en því er til að svara að raunverulegur kostnaður yrði umtalsvert minni vegna áðurnefndrar keðjuverkunar. Þessar tekjur væri ríkið fljótt að ná inn til baka í aukinni veltu.

Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt að leið sem ekki aðeins virkar til að bæta heimilum landsins upp aukakostnað við matarskattinn, þurfum ekki að fara í flóknar skattbreytingar. Við þurfum bara að lækka virðisaukann á fatnaði, skóm og fylgihlutum í 12% og þá blasir við einföld mótvægisaðgerð sem virkar. Það yrði ekki bara stór aðgerð fyrir verslunina í landinu, heldur ekki síður fyrir heimilin í landinu.




Skoðun

Sjá meira


×