Erlent

Einfari sem faldi mat og seldi málverk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásarmaðurinn Robert Lewis Dear
Árásarmaðurinn Robert Lewis Dear vísir/epa
Maðurinn sem grunaður er um að hafa myrt þrjá á heilsugæslustöð Planned Parenthood samtakanna á föstudag mun koma fyrir rétt í dag í Colorado. Honum er gefið að sök að hafa hafið skothríð í heilsugæslustöðinni með þeim afleiðingum að lögreglumaður og tveir óbreyttir borgarar, þar á meðal tveggja barna móðir, biðu bana. Níu aðrir særðust.

Sjá einnig: Segja árásarmanninn vera á móti fóstureyðingum

Robert Lewis Dear er 57 ára gamall og hefur verið lýst af samferðamönnum sínum sem miklum einfara. Það endurspeglist meðal annars í húsakynnum hans sem eru í fjallendi Suður-Karólínu og Colorado. Kunningjar hans segja árásina á föstudag hafa komið sér á óvart.

Faldi mat í skóginum og seldi málverk

Dear hafi ekki látið í veðri vaka að hann hefði slíkt í hyggju. Hann hafi þannig ekki heldur viðrað öfgafullar skoðanir sem gætu hafa gefið vísbendingu um að fyrrgreind hegðun Dear væri hugsanleg.

Nágrannar mannsins segja hann hafa lagt það í vana sinn að fela mat í skóglendinu umhverfis heimili hans og afla sér tekna með sölu á málverkum frænda síns. Málverkin voru oftar en ekki af plantekrum í Suðurríkjunum eða svipmyndir af Masters golfmótaröðinni.

Þá hefur CBS eftir einum nágranna Dear að hann hafi einu sinni dreift blöðum með gagnrýni á Barack Obama Bandríkjaforseta. „Hann ræddi þau ekkert frekar. Hann sagði bara „Líttu á þau þegar þú hefur tækifæri til,“ er haft eftir honum.

Andstaða við fóstureyðingar kveikjan

Þegar Dear var handtekinn af lögreglu  á föstudag mun hann hafa sagt „No more baby parts“, eða „ekki fleiri líkamshluta barna“. Maðurinn gekk inn á heilsugæslustöð samtakanna Planned Parenthood, þar sem fóstureyðingar eru meðal annars framkvæmdar, og hóf skothríð.  

Samtökin hafa það eftir sjónarvottum að drifkraftur Dear hafi verið andstaða hans við fóstureyðingar. Þó segjast þau ekki geta fullyrt hvort tilgangur árásrinnar hafi verið að að láta samtökin hverfa frá stefnu sinni. 19 heilsugæslustöðvar Planned Parenthood voru opnar í dag en stöðin í Colorado er lokuð vegna skemmda um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×