Handbolti

Einar sá rautt: Dómararnir voru stórkostlegir | myndband

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Það er auðvitað hrikalega leiðinlegt að tapa leikjum á heimavelli," sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir leikinn í kvöld.

Framarar töpuðu fyrir Aftureldingu 29-24 í sjöundu umferð N1-deild karla en leikurinn fór fram í Safamýrinni.

„Ég verð samt sem áður að vera ánægður með þá baráttu sem strákarnir sýndi við þessar aðstæður."

„Sóknarleikur okkar var ofboðslega þungur og við náðum okkur í raun aldrei á strik þar, nema kannski fyrstu mínúturnar. Sigurður (Eggertsson) hélt okkur á floti sóknarlega."

Einar Jónsson var allt annað en sáttur við dómara leiksins í kvöld og las þeim pistilinn eftir leik með þeim afleiðingum að hann fékk rautt spjald.

„Ég er bara nokkuð ánægður hvað leikmenn mínir náðu að halda haus í kvöld miðað við það sem gekk á hér í kvöld."

„Það er gríðarlega erfitt að halda einhverju tempói þegar liðið er 1-2 mönnum færri stóran hluta af leiknum og við vorum að glíma við það í kvöld."

Þegar blaðamaður Vísis spurði þjálfarann um frammistöðu dómarans var svarað með mikilli kaldhæðni.

„Dómgæslan var frábær og sjaldan séð jafn stórkostlega frammistöðu, þeir báru af hér á vellinum. Þessir menn hljóta að fara dæma í final four í Champions League," sagði Einar að lokum í mikilli kaldhæðni.

Þess má geta að hann hafði fengið rautt spjald nokkrum mínútum áður fyrir að segja sína skoðun á dómgæslu leiksins.

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×