Körfubolti

Einar Árni hættir í vor og Baldur tekur við

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar Árni á hliðarlínunni í vetur.
Einar Árni á hliðarlínunni í vetur. vísir/anton
Einar Árni Jóhannsson hættir sem þjálfari Þór Þorlákshöfn í vor eftir þrjú tímabil í Þorlákshöfn. Aðstoðarmaður hans þessi þrjú, Baldur Þór Ragnarsson, mun taka við liðinu og stýra á næsta tímabili.

Einar Árni hefur unnið frábært starf undanfarin ár í Þorlákshöfn, en liðið situr nú í níunda sæti deildarinnar og flest bendir til þess að liðið fari ekki í úrslitakeppni þetta árið. Mikil meiðsli hafa herjað á liðið og í afar fáum leikjum hefur liðinu tekist að stilla upp fullmönnuðu liði.

„Það hefur verið frábært að starfa í Þorlákshöfn og það var mjög erfið ákvörðun að afþakka framlengingu á 3ja ára samningnum sem rennur út núna í vor. Ég tilkynnti forráðamönnum Þórs mína ákvörðun um síðustu mánaðarmót til að félagið gæti farið að huga að framhaldi,” sagði Einar í samtali við Facebook-síðu félagsins.

„Mér hefur liðið afskaplega vel hjá Þór þar sem aðstæður eru frábærar og fólkið í kringum félagið einstakt. Við Baldur Þór höfum átt frábært samstarf og hann hefur haft stórt hlutverk í teyminu þessi þrjú ár sem við höfum unnið saman og ég er ánægður með að hann fái að halda áfram að byggja ofan á störf okkar og treysti ég honum til góðra verka.

„Hvað mig sjálfan varðar þá bý ég 80 km frá íþróttahúsinu í Þorlákshöfn og tveir tímar í akstri á dag rífa aðeins í til lengdar. Tíminn verður að leiða í ljós hvert næsta verkefni verður, en ég ætla að njóta lokasprettsins með strákunum”, sagði Einar Árni að lokum.

Baldur Þór er uppalinn í Þorlákshöfn og þekkir þar hvern krók og kima, en um tíma var hann fyrirliði liðsins. Hann hefur verið styrktarþjálfari A-landsliðsins, þjálfaði yngri landslið Íslands og verið yfirþjálfari Þórs sem mun halda áfram samhliða því að þjálfa liðið í Dominos-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×