Handbolti

Einar Andri tekur við Aftureldingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, tekur við liði Aftureldingar frá og með næsta keppnistímabili.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en Einar Andri staðfestir að hann hafi skrifað undir þriggja ára samning við Mosfellinga.

„Mér leist afar vel á framtíðarsýn þeirra og ákvað í framhaldinu að skrifa undir samning,“ sagði Einar Andri við blaðið í dag.

Einar Andri kveður nú FH eftir fimmtán ára veru í Hafnarfirðinum, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann hefur þjálfað hjá meistaraflokk félagsins síðustu fimm ár og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 2011.

Hann segir að hann hafi talið sér nauðsynlegt að takast á við nýja áskorun sem þjálfari en Afturelding leikur í Olísdeild karla sem nýliði á næsta ári. Konráð Olavsson hefur þjálfað liðið en hætti eftir tímabilið í vor.

„Liðið hefur háleit markmið sem mér líst vel á að takast á við. Markmiðið er að Afturelding festi rætur í efstu deild. Þegar það hefur tekist verður hægt að stefna hærra.“

Einar Andri klárar þó vitanlega fyrst tímabilið með FH en lið hans er komið með 2-0 forystu gegn erkifjendunum og deildarmeisturum Hauka í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×